Viðskipti innlent

Fyrirtæki föður leikstjóra Grimmdar keypti 20 þúsund miða á myndina

Birgir Olgeirsson skrifar
Skjáskot í stiklu úr kvikmyndinni Grimmd en leikkonan Margrét Vilhjálmsdóttir fór með aðalhlutverk í þeirri mynd.
Skjáskot í stiklu úr kvikmyndinni Grimmd en leikkonan Margrét Vilhjálmsdóttir fór með aðalhlutverk í þeirri mynd. YouTube
Fyrirtæki í eigu föður leikstjóra kvikmyndarinnar Grimmdar keypti 20 þúsund aðgöngumiða á kvikmyndina árið 2016 fyrir tíu milljónir króna.

Þetta kemur fram í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem fyrirtækið Sena er dæmt til að greiða framleiðslufyrirtækinu Virgo 2 tæpar fjórar milljónir króna vegna vanefnda á dreifingarsamningi vegna kvikmyndarinnar. Dómurinn er ansi langur og vísað þar í margskonar yfirlýsingar og samninga.

Grimmd fékk tvær stjörnur hjá gagnrýnanda Vísis á sínum tíma en hann sagði myndina grafalvarlega en áhrifalausa.

Átti helmingshlut ásamt öðrum

Þann 20. janúar árið 2016 undirrituðu Anton Ingi Sigurðsson, leikstjóri myndarinnar, og Ragnar Þór Jónsson samkomulag þess efnis að þeir ættu saman allt hlutafé í Virgo 2 ehf. sem ætti jafnframt allan höfundarrétt að kvikmyndinni Grimmd.

Allar tekjur, styrkir og kostnaður við gerð myndarinnar átti samkvæmt sama samkomulagi að fara í gegnum bankareikninga félagsins í Íslandsbanka.

Anton Sigurðsson leikstjóri.Fréttablaðið/GVA
Í samkomulaginu kom fram að Ragnar Þór hefði einn lagt fram 7,5 milljóna króna ábyrgð fyrir yfirdrætti á bankareikningi félagsins til að geta hafið vinnu við gerð myndarinnar. Fyrstu greiðslur til félagsins áttu að fara í að greiða þennan yfirdrátt niður og aflétta í leiðinni ábyrgð Ragnar Þórs.

Í samkomulaginu kom einnig fram að á meðan yfirdráttur vari og ábyrgð Ragnars sé í gildi fallist Anton á að allt hlutafé félagsins sé í eigu Ragnars Þórs.

1. mars árið 2016 undirritaði Anton Ingi fyrir hönd Virgo 2 samning þar sem Senu var veittur einkaréttur á dreifingu kvikmyndarinnar til kvikmyndahúsa á Íslandi, gegn því að fá í sinn hlut prósentuhlutfall af nettóverði aðgöngumiða. Í samningnum var kveðið á um ýmsar skyldur Senu sem átti að greiða framleiðanda fjórar milljónir króna, auk virðisaukaskatts, sem sölutryggingu þann 15. maí 2016 og átti sölutryggingin að dragast frá hlut Virgo 2.

Virgo 2 var með reikning hjá Íslandsbanka.Vísir/Valli

Sætti harkalegum innheimtuaðgerðum

Fyrir dómi lá síðan ódagsett yfirlýsing Antons Inga fyrir hönd Virgo 2 við Senu þar sem því var lýst yfir að greiðslufyrirkomulagið og önnur ákvæði yfirlýsingar aðila frá 15. mars 2016 séu niður fallin. Virgo 2 hafi óskað eftir því að greitt verði inn á annan bankareikning en fram kom í yfirlýsingunni.

Í febrúar árið 2017 sendi lögmaður Ragnars Þórs Senu bréf þar sem bent var á að engar greiðslur hefðu borist inn á umræddan bankareikning Virgo 2 og vísaði í fyrri yfirlýsingar. Spurt var hvaða reikning væri verið að leggja inn á og hvers vegna greiðslurnar bárust ekki inn á reikning Virgo 2 hjá Íslandsbanka. 

Ragnar Þór sætti harkalegum innheimtuaðgerðum af hálfu bankans vegna sjálfskuldarábyrgðar á yfirdrætti á téðum bankareikningi Virgo 2.

Mánuði síðar upplýsti lögmaður Ragnars Þórs að greiðsla að fjárhæð fjögurra milljóna króna hefði borist inn á téðan bankareikning Virgo 2 hjá Íslandsbanka en þess var óskað að Sena upplýsti án tafar hvenær eftirstöðvarnar 8,9 milljónir króna, yrðu inntar af hendi.

Þeim tölvupósti var svarað af hálfu Senu nokkrum dögum síðar þar sem kom fram að fyrirtækið hefði staðið í einu og öllu varðandi gerða samninga við Virgo 2. Var vísað í samkomulag við Anton Inga um breytt greiðslufyrirkomulag. Hann væri sá eini sem hefði komið fram af hálfu Virgo 2 í viðskiptum við Senum.

Stiklu úr myndinni má sjá að neðan.

20 þúsund miðar á 10 milljónir

Í greinargerð Senu sem lá fyrir í málinu er rakið að eftir sýningu myndarinnar í kvikmyndahúsum hafi legið fyrir að einu tekjur af henni á grundvelli dreifingarsamningsins væru fyrir söluandvirði sýningarmiða, sem ekki hafi verið umfram fjögurra milljóna króna sölutrygginguna. Því hafi ekki komið til frekari greiðslna frá Senu til Virgo 2.

Til að auka sölu á aðgöngumiða á kvikmyndina hafi Anton Ingi fengið félag í eigu föður síns, Sólóraf ehf., til að kaupa aðgöngumiða á kvikmyndina beint af Senu fyrir 10 milljónir króna, auk virðisaukaskatts, eigi síðar en 16. desember árið 2016.

Sólóraf ehf. hafi samþykkt snemma árs 2016 að kaupa umrædda miða fyrir 16. desember 2016 beint af Senu gegn því að Virgo 2 og Sena samþykktu að greiðslur sem inntar yrðu af hendi, sambærilegar og hlutdeild sem Virgo 2 átti að fá samkvæmt dreifingarsamningi, myndu renna beint til félags í eigu Antons Inga, Virgo Films ehf., en ekki til Virgo 2.

Sena segist hafa gert ráð fyrir því að ástæðan hafi verið sú að Sólóraf ehf. vildi gera Antoni Inga greiða með kaupum á miðum, en ekki láta Virgo 2, sem Anton Ingi átti einungis 50% hlut í, fá hlutdeild í sölu aðgöngumiðanna. Samkomulag hafi tekist milli Senu, Virgo 2 og Sólórafs ehf. um það fyrirkomulag og því sé ekki um að ræða sölu á aðgöngumiðum með hefðbundnum hætti.

Fyrir dómi var lagður fram reikningur af hálfu Senu um kaup Sólóraf ehf. á 20 þúsund aðgöngumiðum á kvikmyndina fyrir tíu milljónir króna auk virðisaukaskatts. Sama dag gaf Virgo Films hef. út reikning á hendur Senu heildsölu að fjárhæð 8,5 milljóna króna, auk virðisaukaskatts, fyrir hlutdeild í miðasölu og var hann greiddur af Senu.

Anton Ingi staðhæfði í greinargerð sinni að hann hefði látið andvirði umræddra greiðslu til Virgo Films ehf. renna til Virgo 2 með þeim hætti að ógreidd laun starfsmanna Virgo 2 hafi verið greidd.

Héraðsdómur Reykjavíkur.vísir/hanna

Sena hefði mátt vita betur

Héraðsdómur Reykjavíkur mat það svo að hlutlægt séð þá fælust viðskiptin við Sólóraf ehf í sölu aðgöngumiða að kvikmynd sem Virgo 2 var framleiðandi að og átti allan höfundarrétt að. Taldi dómurinn að það gæti ekki talist hafa rúmast innan prókúruumboðs Antons Inga að ráðstafa fjárhagslegum hagsmunum Virgo 2 af sölu höfundaréttarvarins efnis til félags í sinni eigu, jafnvel þótt tilgangurinn hafi öðrum þræði verið sá að auka möguleika á markaðssetningu kvikmyndarinnar á erlendum markaði.

Taldi dómurinn að Senu hefði verið fullkunnugt um að Virgo 2 væri framleiðandi kvikmyndarinnar enda samdi Sena við Virgo 2 um dreifingarrétt að myndinni fyrr sama ár. Taldi dómurinn því rétt að Sena yrði að bera hallann af því að ósannað væri að framangreind ráðstöfun hafi rúmast innan prókúruumboðs Antons Inga. Því var sýknukröfu Senu hafnað.

Var hins vegar þrautarvarakrafa Senu samþykkt, sem var að fyrirtækið yrði aðeins dæmt til að greiða Virgo 2 3,6 milljónir króna því Sena hafði áður greitt félaginu fjórar milljónir króna í sölutryggingu. Þá var Senu gert að greiða Virgo 2 350 þúsund krónur í málskostnað. 

Vísir fjallaði um aðsókn að íslenskum myndum í kvikmyndahúsum árið 2016 en þar var Grimmd í öðru sæti á eftir Eiði Baltasars Kormáks. 


Tengdar fréttir

Frumsýning á Vísi: Óhugnanleg stikla úr Grimmd

Kvikmyndin Grimmd verður frumsýnd þann 21. október en með aðalhlutverk í myndinni fara þau Margrét Vilhjálmsdóttir og Sveinn Ólafur Gunnarsson. Nú frumsýnir Vísir glænýja stiklu úr myndinni sem er greinilega ekki ætluð börnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×