Erlent

Löfven fær tvær vikur til að mynda stjórn

Atli Ísleifsson skrifar
Stefan Löfven, leiðtogi Jafnaðarmanna, og Andreas Norlén, forseti sænska þingsins.
Stefan Löfven, leiðtogi Jafnaðarmanna, og Andreas Norlén, forseti sænska þingsins. EPA/henry montgomery
Forseti sænska þingsins hefur veitt Stefan Löfven, leiðtoga Jafnaðarmannaflokksins, umboð til að mynda nýja ríkisstjórn. SVT greinir frá.

Þingforsetinn Andreas Norlén greindi frá þessu á blaðamannafundi um klukkan 13 í dag. Hann sagði að Löfven fengi tvær vikur til að mynda stjórn, þar meirihluti þingsins myndi verja hann sem forsætisráðherra vantrausti. Norlén og Löfven munu funda að viku liðinni þar sem Löfven mun upplýsa þingforsetann um framgang viðræðna.

Norlén ræddi í morgun við alla leiðtoga þeirra flokka sem náðu inn mönnum á þing. Eftir fund sinn með Norlén í morgun sagði Löfven að samstarf flokka úr bæði rauðgrænu blokkinni og bandalagi borgaralegu flokkanna yrði farsælasta lausnin fyrir land og þjóð. Hann sagði jafnframt að Jafnaðarmenn væru reiðubúnir til málamiðlana.

Mistókst að mynda stjórn

Norlén veitti Ulf Kristersson, leiðtoga hægriflokksins Moderaterna, umboð til stjórnarmyndunar fyrir tæpum tveimur vikum, en Kristersson gekk á fund Norlén í gær þar sem hann tilkynnti að honum hafi mistekist að mynda stjórn sem meirihluti þingsins myndi verja vantrausti.

Mjög flókin staða er uppi á sænska þinginu eftir kosningarnar sem fram fóru 9. september síðastliðinn. Rauðgrænu flokkanir hlutu 144 þingsæti, borgaralegu flokkarnir 143 og Svíþjóðardemókratar 62.

Norlén sagði að tími væri kominn fyrir flokkana að „taka erfiðu umræðurnar“ til að hægt verði að mynda stjórn.



Vænlegir samstarfsflokkar

Löfven hefur áður sagt að Miðflokkurinn og Frjálslyndi flokkurinn, sem báðir tilheyra bandalagi borgaralegu flokkanna, séu vænlegir samstarfsflokkar fyrir Jafnaðarmannaflokkinn.

Bæði Löfven og Kristersson hafa útilokað myndun samsteypustjórnar tveggja stærstu flokkanna, það er Jafnaðarmannaflokksins og Moderaterna.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×