Innlent

Loftslagsbreytingar lumbra á norðurskautinu

Kjartan Kjartansson skrifar
Halla og John Holdren stýra saman Norðurskautsverkefni Harvard-háskóla og vonast til þess að geta hjálpað stefnumótendum við að byggja stefnu sína á traustum grunni.
Halla og John Holdren stýra saman Norðurskautsverkefni Harvard-háskóla og vonast til þess að geta hjálpað stefnumótendum við að byggja stefnu sína á traustum grunni. Vísir/Vilhelm
Hraðar umhverfisbreytingar „lumbra“ nú á norðurskautinu sem upplifir tvisvar til fjórum sinnum hraðari loftslagsbreytingar en önnur svæði jarðarinnar að meðaltali. Þrátt fyrir það er stefnumörkun ríkja ekki nálægt því að nægja til að bregðast við þeim. Fyrrverandi vísindaráðgjafi Baracks Obama fyrrverandi Bandaríkjaforseta og íslenskur sérfræðingur vinna saman að því að brúa gjánna á milli stefnumörkunarinnar og raunveruleika umhverfisbreytinganna.

John Holdren var vísinda- og tækniráðgjafi Obama og stýrði jafnframt nefnd sem samhæfði aðgerðir bandarísku alríkisstjórnarinnar á norðurskautinu. Hann hefur haldið áfram að vinna við málefni norðurslóða með Norðurskautsverkefni Harvard-háskóla í Bandaríkjunum ásamt Höllu Hrund Logadóttur, meðstofnanda og forstöðumanns verkefnisins. Þau voru stödd á landinu vegna Arctic Circle-ráðstefnunnar sem fór fram í Hörpu um helgina.

Loftslagsbreytingar sem menn valda nú á jörðinni með losun sinni á gróðurhúsalofttegundum koma skýrast fram á norðlægum slóðum. Verkefni þeirra Holdren og Höllu leggur sérstaka áherslu á fræðslu og aðstoð við þá sem móta stefnu norðlægra ríkja gagnvart norðurskautinu.

Í viðtali við Vísi segir Holdren að þeim stórstígu umhverfisbreytingum sem nú eru að verða á norðurskautinu fylgi bæði vandamál og tækifæri. Með hnignun hafíssins opnist nýjar siglingarleiðir og tækifæri til jarðefnavinnslu og fiskveiða.

Tækifærunum sjálfum fylgja einnig fleiri áskoranir. Holdren nefnir stjórnun og regluverk utan um nýtingu tækifæranna. Þá vakni upp spurningar um yfirráð í Norður-Íshafinu sem nærliggjandi ríki hafi ekki haft miklar áhyggjur af þegar það var þakið ís.

Innviðir á norðurslóðum standist breytingarnar

Einna mestan áhuga hefur Holdren á áhrifum breytinganna á innviði á norðurskautinu en sótt sé að þeim úr mörgum áttum. Sífreri sé að bráðna, sjávarflóð og aukinn öldugangur gangi á strandlengju sem áður var varin hafís, skógareldar færist í aukana og jafnvel freðmýrin brenni. Hann nefnir sem dæmi að af tíu stærstu skógareldum sem heimildir eru til um í Bandaríkjunum hafi allir nema einn orðið frá árinu 2004, fimm þeirra í Alaska.

Holdren segir að tryggja þurfi að þeir innviðir sem reistir verði til að hagnýta ný tækifæri á norðurskautinu verði þannig úr garði gerðir að gert sér ráð fyrir þróun þessara umhverfisógna þannig að þeir getið staðist þær.

„Það er virkilega verið að lumbra á norðurskautinu. Við erum ekki nálægt því að vera tilbúin með verkefni, áætlanir og stefnumörkun til þess að byggja upp þol fyrir þessum breytingum,“ segir Holdren.

Sem dæmi um það sé vöktun á umhverfisbreytingunum ekki til staðar svo menn geti áttað sig að fullu hvernig þær hafa áhrif á jörðina sem heild. Þar nefnir Holdren meðal annars þiðnandi sífrerann sem getur sleppt gríðarlegu magni kolefnis út í andrúmsloftið og þannig magnað enn hlýnun jarðarinnar.

Skortur á vöktun á umhverfisbreytingum er á meðal þess sem nefnt var í skýrslu vísindanefndar um áhrif loftslagsbreytinga á Íslandi sem kom út í vor.

Halla nefnir að mörg ríkjanna við norðurskautið séu lítil með fámennar ríkisstjórnir. Áskorun geti verið fyrir þær að afla sér upplýsinga og að hafa mannafla til að ná utan um heildarmyndina þegar kemur að því að móta stefnu varðandi norðurskautið.

Halla kennir meðal annars námskeið við Harvard um norðurslóðir. Þar fær hún nemendur til þess að vinna að lausnum á vandamálum og áskorunum. Hópur þeirra kynnir niðurstöður sínar á Arctic Circle-ráðstefnunni í Hörpu.Vísir/Vilhelm

Hjálpa stefnumótendum á norðurslóðum

Það er hér sem Holdren og Halla telja að Norðurskautsverkefni Harvard geti komið til aðstoðar. Þau vinna meðal annars með stefnumótendum í norðurskautsríkjunum á ákveðnum sviðum, ekki síst á vettvangi Norðurskautsráðsins þar sem Íslendingar taka við formennsku á næstunni.

„Við vonumst til þess að hjálpa stefnumótendum til að tryggja að við innleiðum ekki stefnu sem hefur slæmar afleiðingar vegna þess að hún var ekki nægilega vel ígrunduð,“ segir Halla.

Það geri verkefnið meðal annars með því að færa fram upplýsingar sem ríki geti byggt stefnumótun sína á, stuðla að rannsóknum og mennta nýja kynslóð leiðtoga fyrir norðurskautið. Harvard-háskóli byrjaði þannig að bjóða upp á námskeið um stefnumótun fyrir norðurskautið í fyrsta skipti en þar sjá Halla og Holdren um kennslu.

„Verkefnið okkar skoðar stærð og eðli gjáarinnar á milli þeirrar stefnu sem við höfum og þeirrar sem við þurfum á að halda,“ segir Holdren.



Áhrifamesta skýrsla IPCC til þessa

Ný skýrsla Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) um markmið Parísarsamkomulagsins um að halda hlýnun jarðar innan við 1,5-2°C sem kom út í síðustu viku leiddi berlega í ljós þá gjá sem er til staðar á milli aðgerða og stefnumótunar annars vegar og raunveruleika yfirvofandi loftslagsbreytinga annars vegar.

Í henni kom fram að líkur sé á því að menn verði búnir að losa svo mikið af gróðurhúsalofttegundum eftir aðeins tólf ár að 1,5°C hlýnun frá iðnbyltingu verði óhjákvæmileg og að afar erfitt verði að halda henni innan við 2°C. Áhrifin af þeirri einni gráðu hlýnunar sem þegar er orðin séu veruleg.

Þrátt fyrir þessa dökku mynd sem dregin er upp í skýrslunni gerir hún einnig ljóst að verulegu máli skiptir að menn takmarki hlýnunina eftir fremsta megni jafnvel þó að þeir nái ekki markmiðum Parísarsamkomulagsins.

Holdren segir að þó að skýrslan hafi ekki sagt fólki sem er vel inni í vísindunum neitt nýtt sé hún langáhrifamesta skjalið um loftslagsbreytingar sem hafi komist á forsíður dagblaða til þessa. Skýrslan sé sú sterkusta sem IPCC hefur nokkru sinni tekið saman.

Hann minnir á að IPCC sé í eðli sínu varkár stofnun þar sem hún þurfi alltaf að fá öll aðildarríki til að vera sammál. Þannig hafa afleiðingar loftslagsbreytinga eins og hækkun sjávarstöðu verið taldar vanáætlaðar í fyrri skýrslum.

„Í þessu ljósi er stórmerkilegt að skýrslan hafi verið svo skýr og afdráttarlaus,“ segir Holdren.

Nefnir hann að í skýrslunni sé skýrt greint frá því áhrif hnattrænnar hlýnunar verði ekki línuleg heldur komi þau hraðar fram. Þannig verði 1,5° hlýnun miklu verri en 1° hlýnun, og 2°hlýnun mun verri en 1,5° hlýnun.

„Ég vildi bara óska að þau hefðu skoðað meira áhrifin við 3-4°C hlýnun því þangað stefnum við ef við grípum ekki til róttækra aðgerða,“ segir Holdren.

Holdren stýrði sérstöku norðurskautsráði sem Obama forseti setti á fót. Tengslanetið sem hann myndaði þá nýtist honum í núverandi störfum við norðurslóðaverkefni Harvard-háskóla.Vísir/Vilhelm

Kostnaðurinn ofmetinn, tjónið vanmetið

Helst telur Holdren að gagnrýna megi efnahagslegar spár um kostnað við loftslagsaðgerðir og tjón af völdum loftslagsbreytinga sem er að finna í skýrslu IPCC. Hann telur að tjónið sé vanmetið en kostnaðurinn við aðgerðir ofmetinn.

„Af því sem ég veit um hvernig áhrifin stigmagnast með hækkandi hita tel ég líklegra að kostnaðurinn við tjón sé vanmetið frekar en ofmetið. Það er líklegt að matið á tjóni sé lágt. Það er líklegt að matið á kostnaði við lausnir sé hátt,“ segir hann.

Máli sínu til stuðnings nefnir hann að tjónið sé alls ekki línulegt við hækkandi hitastig. Aðeins lítil breyting á meðalhita jarðar auki verulega líkurnar á öfgum eins og versnandi stormum, verri þurrkum og skógareldum og ákafari úrkomu og flóðum.

„Það eru öfgarnar sem drepa þig, ekki meðaltalið,“ segir Holdren.

Hvað kostnaðinn við aðgerðir varðar segir Holdren að efnahagslíkön vanmeti alltaf nýsköpun, meðal annars því tæknin þróist hraðar en þau gera ráð fyrir.

„Það er þumalputtaregla í rannsóknum á tækni að menn ofmeta alltaf hvað tæknin getur gert til skemmri tíma litið og vanmeta hvað hún er fær um til lengri tíma,“ segir hann.

Nefnir hann snjallsímana sem dæmi. Fyrir fimmtíu árum hafi fólk ekki getað ímyndað sér þá þar sem tæknin sem þeir byggja á hafi ekki verið fundin upp. Snjalltækin hafi orðið að veruleika vegna tækniframfara á mörgum mismunandi sviðum.

„Við vitum ekki hvað aðgerðirnar kosta, hvorki aðlögun né mótvægisaðgerðirnar. Við vitum hvað það kostar að nota núverandi tækni á núverandi verði en tæknin breytist,“ segir Holdren.

 

Rödd atvinnulífsins vegur þyngra

Stjórnvöld í ýmsum ríkjum heims hafa í mörgum tilfellum enn ekki verið tilbúin til þess að grípa til aðgerða sem skýrsla IPCC bendir til að séu ekki fullnægjandi til að ná markmiðum Parísarsamkomulagsins.

Undir stjórn Donalds Trump forseta ætla Bandaríkin að draga sig út úr Parísarsamkomulaginu í nóvember árið 2020, Ástralar hafa dregið lappirnar og ætla sér enn að brenna kolum í stórum stíl og ljóst virðist að næsti forseti Brasilíu muni hverfa frá loftslagsaðgerðum og opna Amazon-frumskóginn fyrir frekari skógareyðingu.

Halla telur ekkert einfalt svar við því hvernig hægt sé að brúa bilið á milli raunveruleika loftslagsbreytinga og stefnu ríkisstjórna heims í þessu umhverfi.

„Ég held að það þurfi mikla baráttu og þrýsting frá mismunandi aðilum. Það verður einnig að virkja almenning til að halda uppi þrýstingi. Ég tel að háskólar og félagasamtök leiki stórt hlutverk í því,“ segir hún.

Holdren telur að atvinnulífið og fyrirtækið hafi lykilhlutverki að gegna í þessu samhengi.

„Þingið hlustar á fyrirtæki meira en nokkurn annan. Það er sorglega staðreyndin,“ segir hann.

Nokkur árangur hafi náðst í að fá forsvarsmenn atvinnulífsins til þess að koma þeim skilaboðum til stjórnmálamanna að það séu hagsmunir þeirra að mæta skuldbindingum Parísarsamkomulagsins um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og auka metnaðinn í þeim efnum.

„Þeir segja við þingið að löndum og fyrirtækjum sem tekst að þróa loftslagsvænar lausnir vegni vel. Þau sem gera það ekki þurfi að kaupa vörur af þeim löndum sem gera það. Það er boðskapur sem þingið heyrir,“ segir Holdren og vísar þar fyrst og fremst til Bandaríkjaþings.

Vísbendingar eru um að slíkur þrýstingur hafi skilað árangri. Þannig hafi Bandaríkjaþing ekki fallist á allar tillögur Trump forseta um að skera niður framlög til þróunar á vistvænni tækni og orku.

„Ég held að það sé að verulegu leyti vegna þess að þingið hefur heyrt raddir viðskiptalífsins um að það séu ekki hagsmunir Bandaríkjanna að eftirláta öðrum löndum nýsköpun og rannsóknir,“ segir hann.

Halla telur að það sama gæti átt við um íslensk fyrirtæki sem gætu leikið stórt hlutverk í að þrýsta á um aðgerðir.

„Það væru sterk skilaboð frá stjórnendum hér til að fá stjórnvöld til að láta sig málefnið varða enn frekar,“ segir hún.

Fellibylurinn Flórens lék íbúa Norður-Karólínu grátt í september. Auknar veðuröfgar virðast byrjaðar að sannfæra jafnvel efasemdamenn um raunveruleika loftslagsbreytinga.Vísir/EPA

Of seint að aðhafast þegar göturnar eru stráðar líkum

Á endanum telur Holdren að tvö grundvallaratriði eigi eftir að knýja á um hertar aðgerðir gegn loftslagsbreytingum. Annars vegar séu einkenni þeirra sífellt að versna og hins vegar séu lausnirnar að verða ódýrari.

„Spurning er aðeins hvort þetta gerist nógu fljótt,“ segir hann.

Þannig nefnir hann að kostnaður við sólar- og vindorku hafi hrunið á undanförnum árum og að sú þróun eigi eftir að halda áfram, ekki síst þegar orkugeymsla verður orðin skilvirkari og hagkvæmari.

„Þegar aðstæðurnar eru þannig að hvatinn til að grípa til aðgerða er að vaxa og kostnaðurinn við að gera það minnkar þá er það öflug blanda sem mun á endanum leiða til frekari aðgerða,“ segir Holdren.

Breytingar sem virðast hafa átt sér stað á afstöðu stuðningsmanna Repúblikanaflokksins í Norður-Karólínu í Bandaríkjunum til loftslagsbreytinga virðast styðja kenningu Holdren um að afleiðingar hnattrænnar hlýnunar eigi eftir að þrýsta á um aðgerðir.

Repúblikanar hafa undanfarin ár þrætt fyrir að loftslagsbreytingar eigi sér raunverulega stað og ef að þær séu raunverulegar þá sé vafi á hvort að mönnum sé um að kenna, þvert á þekkt vísindi um eðli og ástæður loftslagsbreytinga. Kjósendur þeirra hafa þannig verið mun ólíklegri en aðrir til þess að gera sér grein fyrir breytingunum.

Washington Post sagði frá því í vikunni að fellibylurinn Flórens sem gekk yfir suðaustanverð Bandaríkin í síðasta mánuði og tíðari stormar hafi byrjað að sannfæra suma repúblikana í íhaldssama ríkinu Norður-Karólínu um að loftslagsbreytingar séu raunverulegar og alvarlegt mál.

Nýleg könnun sýndi þannig að 37% repúblikana í Norður-Karólínu töldu að hnattræn hlýnun myndi „mjög líklega“ hafa neikvæð áhrif á strandsvæði í ríkinu á næstu fimmtíu árunum. Það er nærri því þrefalt hærra hlutfall en í könnun á meðal repúblikana frá því í fyrra.

Holdren segir menn betri í að bregðast við atburðum en að fyrirbyggja framtíðarhættu. Sorglegt sé að það þurfi mannskaða í fellibyljum til þess að sannfæra fólk um raunveruleika loftslagsbreytinga.

„Þegar göturnar eru stráðar líkum er of seint að grípa til aðgerða,“ segir hann.


Tengdar fréttir

Hafið í framvarðarlínu loftslagsbreytinga

Lítið er vitað um áhrif súrnunar sjávar á fiska. Vitað er að hafið í kringum Ísland súrnar hraðar en hlýrri höf sunnar í heimi. Breskur sérfræðingur segir Íslendingum að taka mark á eigin mælingum sem séu einstakar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×