Evrópudómstóllinn hefur skipað pólskum stjórnvöldum að stöðva þegar í stað framkvæmd laga sem kveða meðal annars á um lækkun eftirlaunaaldurs hæstaréttardómara í landinu.
BBC segir frá því að dómstóllinn staðfesti með þessu kröfu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins þar sem fram kom að pólsku lögin stæðust ekki lög ESB. Framkvæmdastjórnin sagði ennfremur að lögin grafi undan sjálfstæði dómstóla í Póllandi.
Póllandsstjórn sagði lagabreytingarnar auka skilvirkni dómstóla, en þær fólu meðal annars í sér lækkun eftirlaunaaldurs dómara úr 65 í 70 ár. Með breytingunni hefði fjöldi hæstaréttardómara þurft að hverfa úr embætti á einu bretti og skapa grundvöll fyrir stjórnarflokkinn Lög og réttlæti (PiS) að skipa nýja dómara honum hliðhollum.
Mikil mótmæli brutust á sínum tíma út á götum víða í Póllandi vegna fyrirhugaðra breytinga stjórnvalda.
Póllandsstjórn hefur hafnað ásökunum og segir að almennilegar umbætur hafi ekki verið gerðar á pólsku dómskerfi frá falli kommúnismans árið 1989.
Erlent