Tveir menn sem voru með „sveðjur“ á lofti í hverfi 108 hafa verið handteknir en tilkynning þess efnis barst Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu laust eftir klukkan fjögur í dag.
Jóhann Karl Þórisson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, staðfestir þetta í samtali við Vísi. Hann segir, aðspurður, að mennirnir hefðu ekki ógnað fólki, þeir væru í annarlegu ástandi sökum vímuefnaneyslu.
Þrátt fyrir að í dagbók Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hafi komið fram að mennirnir hefðu haft sveðjur á lofti segir Jóhann Karl, til áréttingar, að ekki hafi verið um eiginlegar sveðjur að ræða heldur sýningargripi sem líktust sveðjum.
Mennirnir tveir þurfa að sofa vímuna úr sér í fangageymslum lögreglu og verður skýrsla tekin þegar þeir vakna.

