Viðskipti innlent

Rukkað fyrir klósettferðir í Borgarfirði

Stefán Ó. Jónsson skrifar
N1 áætlar að um 400 þúsund manns stoppi gagngert til að nýta sér salernin í versluninni í Borgarnesi.
N1 áætlar að um 400 þúsund manns stoppi gagngert til að nýta sér salernin í versluninni í Borgarnesi. Aðsend
Rafrænn aðgangur verður tekinn upp að salernum þjónustustöðvar N1 í Borgarnesi. Ferðalangar sem ekki versla við N1 munu framvegis þurfa að greiða 100 krónur fyrir aðgang að salerninu. Búið er að koma upp sérstökum búnaði við innganginn að salerninu þar sem greitt er fyrir aðgang.

Í tilkynningu frá N1 segir að salernin á stöðinni séu „eðli málsins samkvæmt hugsuð fyrir viðskiptavini N1,“ það er að segja þá sem versla sér þjónustu, mat eða aðrar vörur. Greiðandi viðskiptavinir munu ekki þurfa að greiða fyrir salernisnotkun. Aðrir munu þurfa að borga 100 krónur sem fyrr segir.

Þar segir jafnframt að handhafar N1 korta og lykla fái þar að auki frítt á salernin, rétt eins og börn.

„Mjög hefur færst í aukana að stórir hópar fólks sæki inn á þjónustöðina í Borgarnesi, eingöngu í því skyni að nýta salernin en reikna má með að það sé um 400.000 manns á hverju ári. Vegna þess hefur kostnaður við þrif, salernispappír, rafmagn og aðrar rekstrarvörur aukist mjög verulega án þess að nokkrar tekjur frá þessum hópum hafi komið á móti,“ segir í útskýringu N1.

Borgað í Baulu

Þjónustustöð N1 er þó ekki eina verslunin á þessum slóðum sem tekið hefur upp rafrænan aðgang að salernum. Það hefur að sama skapi verið gert í vegaversluninni Baulu í Borgarfirði.

Þar greiða einstaklingar 300 krónur fyrir aðgang að salerninu en upphæðina geta þeir svo notað sem ákveðna „inneignarnótu“ í versluninni. Greiðandi viðskiptavinir Baulu þurfa þó ekki að borga fyrir klósettferðina.

Í samtali við Vísi sagði talsmaður verslunarinnar að ástæðan fyrir gjaldtökunni væri sambærileg þeirri sem kemur fram í útskýringu N1. Það kosti að halda úti salernisaðstöðu og því verið brugðið á það ráð að innheimta gjald af þeim sem nýti sér salernin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×