Körfubolti

2.000 dagar frá síðasta deildarsigri Njarðvíkur gegn Keflavík í Ljónagryfjunni

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Logi Gunnarsson þyrstir væntanlega í sigur gegn Keflavík.
Logi Gunnarsson þyrstir væntanlega í sigur gegn Keflavík. vísir
Fyrstu umferð Domino´s-deildar karla í körfubolta lýkur í kvöld með tveimur leikjum en síðasti leikurinn er algjör sprengja. Stórveldin og erkifjendurnir Njarðvík og Keflavík mætast í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport HD klukkan 20.15.

Bæði lið styrktu sig vel á leikmannamarkaðnum í sumar en Njarðvíkingar fengu heim Bandaríkjamanninn Jeb Ivey sem leiddi liðið til síðasta Íslandsmeistaratitils félagsins árið 2006. Þá er það komið með tvo öfluga Króata.

Keflavík átti stærstu félagaskipti sumarsins þegar að Bandaríkjamaðurinn og tvöfaldi Íslandsmeistarinn Michael Craion datt í hús skömmu fyrir mót en miðherjinn magnaði var óstöðvandi í Domino´s-deildinni áður en að hann fór til Frakklands að spila.

Keflavík hefur gengið svakalega vel í Ljónagryfjunni í Domino´s-deildinni, alltof vel líklega að mati Njarðvíkinga sem eru ekki búnir að leggja erkifjendur sína á heimavelli í tæp fimm ár.

Keflavík er búið að vinna fjóra deildarleiki í röð í Ljónagryfjunni, síðast í byrjun desember í fyrra þegar að Keflavík hafði fjögurra stiga sigur.

Njarðvík vann síðast Keflavík í Ljónagryfjunni 14. mars 2013 en alls eru 2.031 dagur síðan að Njarðvík vann nágranna sína á heimavelli. Þeir vilja vafalítið breyta því í kvöld.

Þessi stórleikur er sá fyrsti á nýjum föstudagstíma klukkan 20.15 en nú verða alltaf tveir leikir í beinni á föstudögum. Sá fyrri í kvöld er viðureign Stjörnunnar og ÍR. Domino´s-Körfuboltakvöld gerir svo upp alla umferðina klukkan 22.10.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×