Innlent

Smári McCarthy telur umfang heræfingar hafa vaxið

Heimir Már Pétursson skrifar
Smári McCarthy fulltrúi Pírata í utanríkismálanefnd.
Smári McCarthy fulltrúi Pírata í utanríkismálanefnd. Vísir/HANNA
Smári McCarthy fulltrúi Pírata í utanríkismálanefnd spurði Guðlaug Þór Þórðarson utanríkisráðherra út í heræfingu Atlantshafsbandalagsins á Atlantshafi í næsta mánuði í fyrirspurnatíma á Alþingi í morgun. Æfingin hafi fyrst verið kynnt fyrir utanríkismálanefnd hinn 7. febrúar síðast liðinn. Talað hafi verið um að einhverjir hermenn yrðu fluttir með þyrlu frá skipum á hryðjuverkaæfingu annars vegar og hins vegar yrðu um 200 hermenn við þjálfun í óbyggðum.

„Í kynningu sem við fengum í nefndinni í gær bar við annan tón. Þar er meðal annars talað um landgöngu með um þrjátíu landgöngu prömmum sem geta borið um sex þúsund hermenn. Ég veit ekki hvort þeir verði fullir, það er að segja prammarnir. Þá er búist við þúsundum hermanna í borginni í landvistarleyfi sem verða þá innan um óeinkennisklædda herlögreglu,” sagði Smári.

Flest annað sem áður hafi verið kynnt virðist aftur á móti standast til dæmis hvað varðaði netöryggisæfingar, þótt augljóst væri að umfang æfingarinnar hér á landi hafi aukist á undanförnum mánuðum.

„Því langar mig að spyrja utanríkisráðherra hvort hann samþykkt þessa útvíkkun á umfangi heræfingarinnar og þá sérstaklega; hefur þetta verið borið undir ríkisstjórn,” spurði Smári.

Utanríkisráðherra kannaðist ekki við að umfang æfingarinnar hafi aukist. Frá fyrsta degi hafi verið lögð áhersla á að hafa allt opið varðandi þessa æfingu, sérstaklega gagnvart utanríkismálanefnd.

„það er gert ráð fyrir að það verði æfð lending landgönguliðs í Sandvík sunnan við hafnir á Reykjanesskaga. Þrjú til fjögur hundruð manna lið kemur í land á loftpúðaskipum og prömmum. Samtímis flytja þyrlur um 120 manna lið á öryggissvæðið á Keflavíkurflugvelli. Ég veit ekki betur en þetta hafi verið upplýst alveg frá því þetta var kynnt fyrst,” sagði Guðlaugur Þór.

Smári ítrekaði engu að síður að hann teldi samkvæmt síðustu kynningu á umfangi æfingarinnar í gær að hún hefði vaxið að umfangi. Hann endurtók spurninguna um hvort ríkisstjórn og þá forsætisráðherra sem formanni þjóðaröryggisráðs hafi verið gerð grein fyrir umfangi æfingarinnar hér á landi.

„Það er ekki svo að utanríkisráðherra sé að leyna ríkisstjórn eða hæstvirtum forsætisráðherra heræfingu af þessari gerð eða örðu slíku. Mér finnst ég ekki þurfa að taka það fram en úr er spurt skal bent á það augljósa. Að sjálfsögðu er það ekki gert,” sagði Guðlaugur Þór Þórðarson.

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×