Erlent

Rappmógúllinn fyrrverandi Suge Knight í 28 ára fangelsi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Halla fór undan fæti hjá Knight eftir að rapparinn Tupac var myrtur.
Halla fór undan fæti hjá Knight eftir að rapparinn Tupac var myrtur.
Rappmógúllinn fyrrverandi Marion Knight, betur þekktur sem Suge Knight, hefur játað á sig manndráp. Knight var gefið að sök að hafa keyrt yfir tvo einstaklinga árið 2015 með þeim afleiðingum að annar þeirra lést. Knight lét sig svo hverfa af vettvangi. Hann mun þurfa að dúsa í fangelsi í 28 ár.

Knight er best þekktur fyrir að hafa stofnað plötuútgáfuna Death Row Records á tíunda áratug síðustu aldar. Útgáfan var ein sú helsta í rappsenuni í Bandaríkjunum á sínum tíma og gaf út þekktar plötur með Dr. Dre, Snoop Dog og Tupac, svo dæmi séu tekin. Halla fór undan fæti hjá Knight eftir að Tupac var skotinn til bana í bifreið Knight en útgáfa hans varð síðar gjaldþrota

Manndrápið sem Knight játaði á sig má sjá á upptökum öryggismyndavéla sem voru meðal sönnunargagna í málinu. Þar má sjá Knight koma á pallbíl sínum að verslun í Compton í Los Angeles. Kom annar af þeim sem Knight ók yfir að bíl hans. Svo virðist sem að einhverjar deilur hafi hafist og að lokum má sjá Knight bakka af ákafa áður en hann keyrir yfir manninn. Þá keyrði hann einnig á annan mann sem lést, en hinn slasaðist alvarlega.

Atvikið átti sér stað á upptökustað fyrir auglýsingu fyrir myndina Straight Outta Compton, mynd sem fjallar um rappsveitina NWA, sem Knight tengist sterkum böndum. Talið er að atvikið megi rekja til deilna um myndina.

Knight gerði samning við saksóknara um að játa á sig manndráp og sleppa þannig við ákærur um morð og tilraun til morðs. Hefði hann verið fundinn sekur um slíkt hefði hann staðið frammi fyrir lífstíðarfangelsi. Hluti af samningnum felur í sér að Knight fær 22 ára dóm fyrir manndrápið og sex ár í viðbót þar sem þetta er hans þriðja alvarlega brot.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×