Innlent

Erfðafjárskattur, traust og deilur um sérfræðilækna í Víglínunni

Samúel Karl Ólason skrifar
Víglínan er í opinni dagskrá og beinni útsendingu á Stöð 2 og Vísi kl. 12:20.
Víglínan er í opinni dagskrá og beinni útsendingu á Stöð 2 og Vísi kl. 12:20. Vísir
Erfðafjárskattur á Íslandi var hækkaður úr fimm í tíu prósent tveimur árum eftir hrun þegar þáverandi ríkisstjórn var með allar klær úti til að auka útgjöld ríkissjóðs sem auka þurfti útgjöld sín um hundruð milljarða vegna hrunsins. Nú er komið fram frumvarp frá Óla Birni Kárasyni og tíu félögum hans í þingflokki Sjálfstæðisflokksins um að lækka skattinn aftur til fyrra horfs í áföngum.

Heimir Már Pétursson fréttamaður fær Óla Björn í Víglínuna á Stöð 2 og Vísi í hádeginu til að ræða þessi mál og fleiri pólitísk álitaefni ásamt Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur þingflokksformanni Pírata. En hún talaði tæpitungulaust í umræðum um skýrslu til að auka traust í stjórnmálum á Alþingi í vikunni.

Þá mæðir töluvert á Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra þessa dagana, ekki hvað síst vegna þess að Sjúkratryggingar Íslands töpuðu máli í Héraðsdómi Reykjavíkur á þriðjudag. Dómurinn ógilti synjun á beiðni Ölmu Gunnarsdóttur háls-, nef-, og eyrnalæknis um aðild að rammasamningi SÍ við sérfræðilækna. Það var gert að áeggjan heilbrigðisráðherra sem vill auka vægi sérfræðinga í fullu starfi í hinni opinberu heilbrigðisþjónustu og endurskoða stefnuna varðandi samninga við sjálfstætt starfandi sérfræðinga.

Víglínan er í opinni dagskrá og beinni útsendingu á Stöð 2 og Vísi kl. 12:20. 

 





Fleiri fréttir

Sjá meira


×