Viðskipti innlent

Kveður sauðfjárbændur og skellir sér til Ítalíu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Svavar Halldórsson hlakkar til að flytja utan til Ítalíu og hefja nám.
Svavar Halldórsson hlakkar til að flytja utan til Ítalíu og hefja nám.
Svavar Halldórsson lætur brátt af störfum sem framkvæmdastjóri markaðsstofunnar Icelandic lamb og Markaðsráðs kindakjöts. Svavar hyggur á meistaranám á Ítalíu til eins árs og verður því í fjarri fjölskyldu um tíma. Hún mun þó fara utan til Svavars með vorinu. Hann hlakkar mjög til að setjast á skólabekk.

Starf framkvæmdastjóra Icelandic lamb hefur verið auglýst laust til umsóknar. Svavar var staddur í Kaupmannahöfn með dætrum sínum þegar blaðamaður náði af honum tali. Hann segir hafa verið kominn tíma á breytingar eftir þrjú og hálft ár í starfinu. Þegar maður hættir að spretta upp úr rúminu á morgnana þurfi að horfa víðar.

Svavar hyggur á nám í stjórnun og markaðssetningu við University of Gastonomic Sciences í Pollenzo. Allajafna nemur fjöldi umsækjanda fleiri hundruðum en aðeins tuttugu komust inn. Því hafi ekkert annað komið til greina en að skella sér í námið sem hefst eftir áramót.

Svo skemmtilega vill til að Svavar er ekki sá eini sem hyggur á nám á erlendri grundu. Dætur Svavars horfa einnig út fyrir landsteinanna. Ein þeirra er nýstúdent og komin í ársnám í Englandi. Næstu tvær fara að ljúka menntaskólanámi og eru þær með Svavari í Kaupmannahöfn þessa stundina að skoða háskóla. Það sannast að háskólanám er fyrir fólk á öllum aldri.

„Ég hlakka ótrúlega til.“

Svavar ásamt konu sinni Þóru um árið á Eddunni.

Krefjandi en gefandi verkefni

Svavar segir starf sitt fyrir íslenska sauðfjárbændur hafa verið risaverkefni. Hann rekur síðustu þrjú og hálft ár í pistli sem hann birti á Facebook skömmu eftir að blaðamaður ræddi við hann.

„Annars vegar að finna leiðir til að segja erlendum ferðamönnum frá íslenska lambinu og fá þá til að kaupa meira af afurðunum - enda hafði innanlandssalan á þjóðarréttinum lambakjöti dregist saman um 12% frá 2008 til 2014, á meðan ferðamönnum fjölgaði gríðarlega. Hins vegar fólst verkefnið í að leita nýrra leiða í útflutningi inn á velborgandi og kröfuharða markaði í útlöndum,“ segir Svavar.

Framvindan hafi verið hröð.

„Eftir mikla stefnumótunarvinnu var ákveðið að stofna markaðsstofuna Icelandic Lamb. Að þeirri ákvörðun stóðu framsýnir bændaforingjar og stjórnmálamenn. Nú er markaðsstofan með um 200 samstarfssamninga við veitingamenn, kokka, hönnuði, framleiðendur og handverksfólk um allt land. Samkvæmt könnunum Gallup þekkir þriðjungur ferðamanna merki Icelandic Lamb sem prýðir nú um 165 veitingastaði. Innanlandssalan á lambakjöti jókst um 8% frá 2015 til 2017 og ekkert bendir til annars en sú þróun muni halda áfram. Aukin sala til erlendra ferðamanna er helsti drifkraftur þessa viðsnúnings,“ segir Svavar.

„Á sama tíma hefur verið unnið ötullega að ýmsum markaðssetningarverkefnum í útlöndum. Þótt ytri áföll hafi dunið yfir og sterk króna hafi gert útflutning erfiðan hefur aldrei verið flutt út jafn mikið af íslensku lambakjöti og í fyrra. Góður árangur hefur náðst í Japan þar sem lambakjötið er á matseðlum rúmlega 100 veitingastaða og nýtt verkefni í Þýskalandi lofar góðu. Þá eru Austurríki og Frakkland innan seilingar og viðræður við tvö fyrirtæki um að selja íslenskt lambakjöt inn á efstu hillu kínverska markaðarins. Þetta eru samvinnuverkefni innlendra framleiðenda, erlendra samstarfsaðila og markaðsstofunnar Icelandic Lamb. Ýmislegt fleira er í pípunum en nú er búið að móta ramma sem hægt er að byggja á til framtíðar.“





Sinnir áfram trúnaðarstörfum

Svavar segir öfluga herferð á samfélagsmiðlum hafa skilað miklum árangri og milljónir manna séð um 60 myndbönd og aðrar auglýsingar Icelandic Lamb.

„Óhætt er að fullyrða að aldrei hafa fleiri heyrt um íslenska lambið á jafn stuttum tíma og síðustu tvö ár. Nú er búið að byggja upp öflugan gagnabanka og þekkingu á markaðssetningu íslenskra sauðfjárafurða á netinu sem mun nýtast þegar næstu 50 myndbönd og auglýsingar koma út úr framleiðsluferlinu á næstu vikum og mánuðum.“

Verkefnin hafi verið krefjandi en gefandi

„Sjálfur hef ég kynnst fjöldanum öllum af frábæru fólki; bændum og starfsmönnum þeirra, kjötkaupmönnum, auglýsingafólki og fleirum og fleirum. Þar hefur myndast góð vinátta sem mun vara út ævina.“

Svavar segist þó áfram munu gegna ákveðnum trúnaðarstörfum fyrir sauðfjárbændur og leið tiltekið nýsköpunarverkefni sem muni vonandi gagnast íslenskum bændum í framtíðinni.

„Ég er þakklátur fyrir að hafa fengið tækifæri til að koma markaðsstofunni Icelandic Lamb á legg en nú held ég að hún geti staðið á eigin fótum. Það fylgir því vissulega söknuður að kveðja verkefni sem ég hef verið vakinn og sofinn yfir í mörg ár en ég ber fullt traust til samstarfsmanna minna sem munu halda kyndlinum á lofti. Ég er reiðubúinn að taka næsta skref framávið og reikna með því að eiga dásamlegt ár á Ítalíu. Að náminu loknu verð ég svo vonandi enn betur í stakk búinn til að vinna fyrir Ísland, íslenskan mat og íslenska bændur.“










Fleiri fréttir

Sjá meira


×