Erlent

Segir Kínverja ætla að vasast í kosningunum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Donald Trump ávarpaði Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna þegar hann minntist á meint afskipti Kínverja. Kína er eitt af ríkjum Öryggisráðsins.
Donald Trump ávarpaði Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna þegar hann minntist á meint afskipti Kínverja. Kína er eitt af ríkjum Öryggisráðsins. Vísir/getty
Kínverk stjórnvöld eru að reyna að hafa áhrif á komandi þingkosningar í Bandaríkjunum að sögn Donalds Trump, Bandaríkjaforseta. Þetta kom fram í máli hans á fundi Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna í dag. Kína er eitt af fimm fastaríkjum Öryggisráðsins.

„Þau [kínversk stjórnvöld] vilja ekki að ég eða við sigrum því að ég er fyrsti forseti frá upphafi sem býð þeim birginn í efnahagsmálum,“ er haft eftir Trump á vef breska ríkisútvarpsins.

„Við erum að sigra þau í viðskiptum, við erum að sigra þau á öllum sviðum,“ bætti hann við, án þess þó að leggja fram sannanir máli sínu til stuðnings. 

Þingkosningar fara fram í Bandaríkjunum þann 6. nóvember næstkomandi en eins og Vísir hefur greint frá bendir margt til þess að demókratar nái að styrkja stöðu sína á kostnað flokks forsetans, Repúblikanaflokksins.

Í samtali við fjölmiðla í ágúst sagði helsti þjóðaröryggisráðgjafi Trump, John Bolton, að Rússar, Norður-Kóreumenn, Íranar og Kínverjar væru allir líklegir til þess að vasast í komandi kosningum. Búið væri að grípa til aðgerða til þess að koma í veg fyrir að hugsanleg íhlutun þeirra hafi áhrif á úrslit kosninganna.


Tengdar fréttir

Hlegið að grobbi Trump hjá Sameinuðu þjóðunum

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, var tiltölulega nýbyrjaður á ræðu sinni á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í dag þegar aðrir þjóðarleiðtogar hlóu að honum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×