Mjólkursamsalan (MS) hefur farið þess á leit við brugghúsið Borg að það láti af notkun auðkennisins „Klói“ í bjórbruggun sinni. Tilefnið er súkkulaði-porter sem Borg kynnti til leiks um síðastliðin mánaðamót, en hann ber sama nafn og kötturinn sem MS hefur notað til auðkenningar á kókómjólk fyrirtækisins - Klói. Þar að auki var nafn bjórsins ritað með gulu og bleiku letri, sömu litum og sjá má á feldi kókómjólkurkattarins. Bjórinn var framleiddur í takmörkuðu upplagi en í honum var að finna súkkulaðihismi frá Omnom.
Í bréfi sem MS sendi á Borg, og reifað er í Morgunblaðinu í dag, segist Mjólkursamsalan telja að notkun Borgar á Klóa-nafninu feli í sér „óréttmæta viðskiptahætti sem séu til þess fallnir að afla félaginu viðskipta með ótilhlýðilegum hætti á kostnað áralangrar markaðssetningar MS.“
MS telur þar að auki að notkun Borgar á auðkenninu geti valdið „ruglingi og þau hughrif gætu skapast hjá neytendum að tengsl séu milli kókómjólkur og bjórtegundarinnar.“
Í samtali við Morgunblaðið segist Árni Theódór Long, bruggmeistari hjá Borg, gáttaður á þessum bréfsendingum MS. Hann hafi hreinlega verið búinn að gleyma þessu „súkkulaðimjólkurdæmi,“ bjórinn hafi selst upp á örfáum dögum og að fyrirtæki væri nú að einbeita sér að framleiðslu jólabjórs Borgar. „Ég var líka alltaf meiri Kappa-maður, svo er ég litblindur í þokkabót. Þetta er þá annars ekki í fyrsta skipti sem köttur er að þvælast í nágrannahúsum í Reykjavík,“ er haft eftir bruggmeistaranum Árna.

