Innlent

Framlög til þróunarsamvinnu hækka um 233 milljónir

Atli Ísleifsson skrifar
Ríkisstjórnin stefnir að því að auka framlög til opinberrar þróunaraðstoðar á næstu árum.
Ríkisstjórnin stefnir að því að auka framlög til opinberrar þróunaraðstoðar á næstu árum. Vísir/E.Ól
Heildarfjárheimild til þróunarsamvinnu fyrir árið 2019 er áætluð 5.919 milljónir króna og hækkar um 233 milljónir króna frá gildandi fjárlögum að frátöldum almennum launa- og verðlagsbreytingum.

Þetta kemur fram í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar sem kynnt var í morgun. Miðað er við að 0,28 prósent af vergum þjóðartekjum ársins 2019 verði varið til opinberrar þróunaraðstoðar í heild. Stefnt skuli að því að hlutfallið verði komið í 0,35 prósent árið 2022.

Í frumvarpinu segir að til viðbótar þessum útgjöldum komi önnur framlög sem teljist til opinberrar þróunaraðstoðar, meðal annars stofnfjárframlög og hluti útgjalda á öðrum málefnasviðum vegna umsækjenda um vernd og móttöku kvótaflóttamanna sem í þessu sambandi er áætlaður um 1.707 milljónir króna árið 2019.

„Samtals er gert ráð fyrir að framlög til opinberrar þróunaraðstoðar verði 7.804,9 m.kr. eða 0,28% af þjóðartekjum á árinu 2019 og hækki um 786,2 m.kr. á frá fjárlögum 2018.

Í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er stefnt að því að auka heildarframlag til opinberrar þróunaraðstoðar á næstu árum og að það verði komið í 0,35% af vergum þjóðartekjum árið 2022,“ segir í frumvarpinu.


Tengdar fréttir

Stefnt að 29 milljarða króna afgangi

Fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2019 gerir ráð fyrir afgangur á heildarafkomu ríkissjóðs verði eitt prósent af vergri landsframleiðslu árið 2019.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×