Að sögn stjórnenda tjaldsvæðisins í Laugardal verður hámarksdvalartími í vetur ein vika og hvorki verður heimilt að vera með hjólhýsi né húsbíla á svæðinu. Þarna verður því einungis rekin skammtímaþjónusta fyrir ferðamenn. Þetta er eina heilsárstjaldsvæðið á höfuðborgarsvæðinu og í fyrra bjuggu þar hátt í tuttugu heimilislausir einstaklingar yfir vetrartímann.
Í minnisblaði sem stjórnandi tjaldsvæðisins sendi Reykjavíkurborg í byrjun ágúst sagðist hann opinn fyrir viðræðum um samstarf við borgina um leigu fyrir þá sem búsetuúrræði vantar fyrir. Borgin hefur ekki formlega leitað eftir samstarfi þrátt fyrir að einhverjar viðræður hafi átt sér stað.
Verkefnastýra Frú Ragnheiðar, sem hefur dreift tjöldum til heimilislausra, telur að fólkið muni leita á ýmis svæði í borginni standi þeim ekkert tjaldsvæði opið.

Þeim sem höfðust við á tjaldstæðinu í Laugardal í vetur var boðin aðstaða í Víðinesi en fáir þáðu boðið og þótti úrræðið ekki henta mörgum. Fólkið hefur verið á öðrum tjaldsvæðum í sumar og meðal annars á Víðistaðatúni í Hafnafirði. Því verður hins vegar lokað á morgun og þegar fréttastofa leit við í gær vissi fólk ekki hvert hægt yrði að leita eftir það.
„Þetta mun verða mikil breyting fyrir það fólk sem hefur í rauninni engan annan kost en að nýta sér tjaldsvæðin," segir Svala.