Engar eignir fundust í þrotabúi Hundaræktarinnar ehf í Dalsmynni. Kröfum upp á rúmar 2,3 milljónir króna var lýst í búið en ekkert fékkst upp í þær. Skiptum lauk þann 19. júlí síðastliðinn. Þetta kemur fram í Lögbirtingablaðinu í dag.
Starfsemi Hundaræktarinnar í Dalsmynni var stöðvuð í apríl síðastliðnum og var fyrirtækið tekið til gjaldþrotaskipta um hálfum mánuði síðar, eða 2. maí. Matvælastofnun tók ákvörðun um stöðvun starfseminnar á grundvelli laga um velferð dýra og þá var tekið fram að kröfur stofnunarinnar um varanlegar úrbætur hafi ekki verið virtar. Þá var um endurtekin brot Hundaræktarinnar að ræða en Matvælastofnun hafði einnig afskipti af starfseminni árið 2014.
Greint var frá því í kvöldfréttum Stöðvar 2 fyrr í mánuðinum að síðustu vikur hafi birst myndir af hvolpum á Facebook-síðu Dalsmynnis þar sem fólk spurðist fyrir um verð á hvolpunum. Matvælastofnun fékk fjölmargar fyrirspurnir vegna málsins. Ásta Margrét Sigurðardóttir, eigandi Dalsmynnis, þvertók fyrir að starfsemi færi enn fram í Dalsmynni.
Dalsmynni hefur sætt töluverðri gagnrýni síðustu ár, meðal annars fyrir að stunda „hvolpaframleiðslu.“ Ásta hefur tvisvar unnið meiðyrðamál vegna ummæla um starfsemina.
2,3 milljóna gjaldþrot Hundaræktarinnar í Dalsmynni

Tengdar fréttir

Hundaræktendur fagna ákvörðun MAST og fordæma hundaprangara
Hundaræktarfélag Íslands fagnar þeirri ákvörðun Matvælastofnunar að stöðva starfsemi Hundaræktarinnar ehf í Dalsmynni. Í tilkynningu félagsins segir að starfsemi svokallaðra hundaprangara og hvolpaverksmiðja séu andstæða ábyrgrar hundaræktunar.

Ásta er ósátt við MAST: „Við erum hætt hundarækt“
Ásta Sigurðardóttir eigandi Dalsmynnis segist hissa á tilkynningu Matvælastofnunar fyrr í dag.


Starfsemi Hundaræktarinnar í Dalsmynni stöðvuð
Matvælastofnun stöðvuðu starfsemina á grundvelli laga um velferð dýra.