Viðskipti innlent

Verksmiðjurnar tæmdar og vélbúnaðurinn seldur

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Það er tómlegt um að litast í verksmiðju Kassagerðarinnar.
Það er tómlegt um að litast í verksmiðju Kassagerðarinnar. Fréttablaðið/Stefán
Prentsmiðjan Oddi hefur selt allan vélbúnaðinn í verksmiðjum Plastprents og Kassagerðarinnar úr landi. Kaupendur eru prentsmiðjur í Bandaríkjunum og Afríku.

Oddi sagði upp 86 starfsmönnum í byrjun árs vegna umfangsmikilla breytinga á rekstrinum. Versnandi samkeppnisstaða þvingaði fyrirtækið til að leggja niður framleiðslu á plast- og bylgjuumbúðum en fyrirtækið mun þess í stað einbeita sér að innflutningi og sölu á þessum vörum.

„Þetta er gríðarlegur vélbúnaður, stærsta vélin uppsett er 300 metrar að lengd,“ segir Kristján Geir Gunnarsson, framkvæmdastjóri Odda, í samtali við Markaðinn og bætir við að vélarnar hafi verið komnar

til ára sinna. „Eins og með bíla er virði eldri vélbúnaðar aldrei nema brotabrot af því sem nýjasta módelið kostar.“

Verksmiðja Kassagerðar Reykjavíkur komst í eigu Odda við samruna fyrirtækjanna haustið 2008 en ekki hefur verið ákveðið hvernig henni verður ráðstafað. Verksmiðja Plastprents er hins vegar á leigusamningi.

Oddi var rekinn með 420 milljóna króna tapi á síðasta ári en Kristján segir að fyrirtækið sé nú á síðustu stigum endurskipulagningarinnar. „Þetta voru erfið en nauðsynleg skref í átt að því að reisa Odda við. Nú einblínum við á styrkleika okkar og byggjum á reynslu og þekkingu starfsmanna í næstu skrefum.“


Tengdar fréttir

Tugir misstu vinnuna í bið eftir svörum

Forstjóri Odda gagnrýnir Samkeppniseftirlitið fyrir að bregðast seint við erindum vegna íþyngjandi skilyrða. Biðu í eitt og hálft ár eftir svari. Rekstri Plastprents og Kassagerðarinnar hætt í byrjun árs og 86 manns sagt upp.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×