Samfélagsmiðlarnir Facebook og Twitter hafa lokað fjölmörgum áróðurssíðum á miðlum sínum. Lokanirnar eru sagðar liður í herferð miðlanna gegn falsfréttum og dreifingu villandi upplýsinga. Síðurnar urðu allar uppvísar að slíkum áróðri.
Facebook lokaði yfir 650 síðum hópa, fyrirtækja og einstaklinga, að því er fram kemur í yfirlýsingu frá Mark Zuckerberg, stofnanda miðilsins. Síðurnar voru raktar til áróðursherferða tengdum Íran og Rússlandi. Twitter lokaði 284 reikningum sem allir áttu uppruna sinn í Íran.
Rannsókn á málinu stendur enn yfir. Í yfirlýsingu Facebook kemur þó fram að áróðurssíðurnar hafi beinst að notendum í Miðausturlöndum, Suður-Ameríku, Bretlandi og Bandaríkjunum.
