Viðskipti innlent

Halldór nýr prófessor við tækni- og verkfræðideild HR

Atli Ísleifsson skrifar
Halldór Guðfinnur Svavarsson.
Halldór Guðfinnur Svavarsson. Vísir/HR
Halldór Guðfinnur Svavarsson hefur hlotið framgang í stöðu prófessors við tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík.

Í tilkynningu frá skólanum kemur fram að hann hafi frá árinu 2013 gegnt stöðu forstöðumanns tækni- og verkfræðideildar skólans.

„Hann heldur opinn framgangsfyrirlestur í HR á morgun, föstudaginn 24. ágúst kl. 15:00 í stofu M103. Fyrirlesturinn verður fluttur á ensku og ber titilinn: „About small things“. Í honum mun Halldór greina á almennum nótum frá viðfangsefnum rannsókna sinna undanfarin ár.

Halldór lauk BSc prófi í efnafræði frá Háskóla Íslands árið 1992, MSc prófi í efnisverkfræði frá Tækniháskólanum í Finnlandi árið 1996 og doktorsnámi í eðlisfræði frá Háskóla Íslands 2003. Að námi loknu starfaði Halldór á Rannsóknastofnun Byggingariðnaðarins en réðst til tækni- og verkfræðideildar HR árið 2006. Þar hefur hann m.a. sinnt kennslu í efnafræði og efnisfræði. Frá árinu 2013 hefur hann gegnt stöðu forstöðumaðumanns rannsóknaráðs deildarinnar.

Undanfarinn áratug hafa meginrannsóknarviðfangsefni Halldórs verið þróun nýrrar kynslóðar sólarsella og ljósnema með því að móta efnisbyggingu þeirra á örsmæðar stærðarkvarða. Einnig hefur Halldór stundað rannsóknir á blá-grænum örþörungum við Bláa Lónið og á jarðsjó þess,“ segir í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×