Lögreglan á Austurlandi notaði dróna til þess að hafa uppi á manni sem lögregla telur að hafi ekið bíl sem valt á Seyðisfjarðarvegi skammt neðan við Neðri-Staf á Fjarðarheiði á dögunum.
Ökumaðurinn var á bak og burt þegar lögregla kom á vettvang en lögreglumenn dóu ekki ráðalausir og settu dróna á loft til að skyggnast yfir svæðið.
Það gagnaðist ágætlega því að sá sem talinn er hafa ekið bílnum fannst á göngu langt út í móa, talsvert frá þar sem bílnum var velt. Maðurinn var „talsvert ölvaður“ að því er kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni og var hann handtekinn á staðnum, grunaður um ölvun við akstur.
Notuðu dróna til að hafa uppi á ölvuðum ökumanni eftir bílveltu
Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
