Erlent

Fólksflótti frá Venesúela sagður ógna Suður-Ameríku

Samúel Karl Ólason skrifar
Minnst 1,6 milljón manna hafa flúið Venesúela frá árinu 2015 vegna gífurlegra efnahagsvandræða og óstöðugleika.
Minnst 1,6 milljón manna hafa flúið Venesúela frá árinu 2015 vegna gífurlegra efnahagsvandræða og óstöðugleika. Vísir/AP
Michel Temer, forseti Brasilíu, segir mikla fólksflutninga frá Venesúela ógna öryggi í Suður-Ameríku. Hann hefur sent hermenn til landamæra ríkjanna og á þeirra verkefni að tryggja lög og reglu og vernda innflytjendurna.

Temer sendi Nicolas Maduro, forseta Venesúela, tóninn í kvöld og sagði hann hafa valdið þessum mikla fólksflótta til nágrannaríkja landsins. Minnst 1,6 milljón manna hafa flúið Venesúela frá árinu 2015 vegna gífurlegra efnahagsvandræða og óstöðugleika. Talið er að verðbólgan í Venesúela gæti náð einni milljón prósenta á þessu ári.

Sameinuðu þjóðirnar sögðu fyrr í vikunni að þessi fólksflótti væri að nálgast hættustig og væri farinn að líkjast flæði flótta- og farandfólks yfir Miðjarðarhafið. Til óeirða hefur komið í nágrannaríkjum Venesúela og þar á meðal í Brasilíu í síðasta mánuði þegar óeirðarseggir ráku hundruð flóttamanna aftur yfir landamærin með ógnunum og ofbeldi.

Embættismenn frá Kólumbíu, Ekvador og Perú munu koma saman í næstu viku til að ræða málið. Yfirvöld í bæði Perú og Ekvador hafa hert reglur þar í löndum til að gera fólki frá Venesúela erfiðara með að komast yfir landamærin en dómstólar í Ekvador felldu nýju reglurnar úr gildi þar í landi. Yfirvöld Perú hafa lýst yfir neyðarástandi á landamærum ríkjanna.

Talið er að tæp milljón manna hafi flúið til Kólumbíu og yfirvöld Perú áætla að þar búi rúmlega 400 þúsund Venesúelamenn og þar af einungis 178 þúsund með löglegum hætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×