Skoðun

Þannig

María Bjarnadóttir skrifar
Ég er enginn sérfræðingur en ég held að börn fæðist fordómalaus. Í það minnsta vona ég það alveg einlæglega. Það er svo ónotalegt til þess að hugsa að grátur ungabarns sé í raun rasískt raunakvein. Ég held að fordóma hljóti nýburar að fá í minni eða stærri inngjöfum í gegnum uppeldi og samfélag eftir því sem þau eldast.

Fordómarnir taka svo á sig ýmsar myndir. Undanfarið hafa þeir verið að birtast mikið sem ummæli í athugasemdakerfum netmiðla. Það gera þeir ekki af sjálfu sér. Það er einhver sem skrifar þá. Fordómarnir lifa nefnilega ekki sjálfstæðu lífi. Þeir þurfa manneskjur til þess að nærast á til að halda sér á lífi. Pínulítið eins og Voldemort í Harry Potter.

Þeir geta líka birst sem löggjöf. Samkynhneigð er enn þá refsiverð sumstaðar. Það þýðir að fyrrverandi nýburar, núverandi þingmenn, telja rétt að annað fólk sæti frelsissviptingu eða refsingum fyrir að laðast að fólki af sama kyni. Fordómarnir hafa náð að narta í þau einhvers staðar á leiðinni frá vöggudeild til löggjafarþings.

Fordómafull lög er hægt að afnema. Hér giltu lög sem gerðu samkynhneigð refsiverða og voru afnumin árið 1940. Á grundvelli þeirra var einn maður dæmdur til átta mánaða betrunarhúsvistar fyrir ”holdlegt samræði við aðra karla”. Betrunarvistina tók hann út í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg. Það var því táknrænt og fallegt að hinsegin dagar voru í vikunni opnaðir með því að mála sömu götu í regnbogans litum.

Hinsegin dagar í Reykjavík minna okkur öll á að við erum öll einhvern veginn; þannig og hinsegin og allt þar á milli. Þannig minnka þeir líka vonandi hættuna á að ungabörn smitist síðar af fordómum.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×