Albert gekk til liðs við Heerenveen frá KR árið 2013, þá 16 ára gamall, og söðlaði svo um og fór til PSV Eindhoven þar sem hann hefur mestmegnis leikið með varaliði félagins. Hann lék svo níu leiki með aðalliðinu þegar liðið varð hollenskur meistari síðasta vor.
Albert sá hins vegar fram á að spiltími hans með aðalliði félagsins á yfirstandandi leiktíð yrði áfram af skornum skammti og ákvað því að færa sig um set til AZ Alkmaar í leit að meiri tíma inni á knattspyrnuvellinum. Liðið endaði í þriðja sæti hollensku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili.
„Eins og ég sagði síðasta vor þá fannst mér vera kominn tími á að spila aðalliðsfótbolta fljótlega. PSV Eindhoven hélt sínum sterkustu leikmönnum sem spila framarlega á vellinum og þeir leikmenn voru búnir að vinna sér sæti í liðinu og því fannst mér nauðsynlegt að breyta til,“ sagði Albert um vistaskiptin.

AZ Alkmaar seldi íranska kantmanninn Alireza Jahanbakhsh til enska úrvalsdeildarliðsins Brighton í sumar og Albert telur að hann verði fyrst og fremst hugsaður sem kantmaður fyrst um sinn. Forráðamenn liðsins vita hins vegar að hann getur leysti fleiri stöður.
„Ég hugsa að stysta leiðin fyrir mig inn í liðið sé í kantstöðurnar, annaðhvort hægra eða vinstra megin. Þriðji þjálfari liðsins þjálfaði mig þegar ég kom fyrst til PSV Eindhoven og stýrði mér hjá varaliðinu þar. Þeir vita að ég get spilað á miðjunni og sem framherji, en fyrst um sinn hugsa ég að ég muni spila á kantinum,“ sagði Vesturbæingurinn um hlutverk sitt hjá nýjum vinnuveitanda.

Hann gæti fengið fyrstu mínútur sínar strax um helgina.
Það er leikur á sunnudaginn hjá okkur og ég vonast til þess að vera í leikmannahópnum þar. Ég næ hins vegar bara þremur fótboltaæfingum fyrir þann leik svo það er ekki víst að ég komi við sögu í leiknum, en við sjáum til.“