Innlent

Eðlilegt að verslunarmenn fái frí í dag

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Frídagur verslunarmanna er haldinn mishátíðlegur um land allt í dag. Þónokkrar verslanir eru opnar en verslunarstjóri Fjarðakaupa gaf starfsmönnum frí alla helgina og hefur gert það í 45 ár.

Fyrir 124 árum síðan tóku verslunareigendur upp á því að veita starfsmönnum sínum frí þennan umrædda dag, en þónokkrar verslanir voru lokaðar í dag.

Verslunarstjóri Fjarðarkaupa ákvað að skella í lás á föstudag og veita starfsmönnum sínum frí alla helgina, en slík hefur venjan verið frá því að starfsemin hófst. Að hans sögn við mikinn fögnuð starfsmanna.

„Að sjálfsögðu eru allir starfsmenn ánægðir með að fá þarna tvo extra frídaga. Þau viðbrögð sem við sjáum á facebook eru góð. Þar fáum við mjög góðar undirtektir og hrós viðskiptavina. Það virðist vera almenn ánægja viðskiptavina okkar með lokunina,“ sagði Gísli Þór Sigurbergsson, verslunarstjóri Fjarðarkaupa.

Þá er óhætt að segja að útihátíðir hafi tekið yfir helgina og því sé eflaust útlit fyrir mikla sölu á landsbyggðinni.

„Fyrir verslanir úti á landi er þetta heilmikil verslun. Ef men væru með lokað þá væru þeir að missa af mikilli verslun. En þetta er frídagur verslunarmanna og okkur í Fjarðarkaupum finnst eðlilegt að starfsmenn fái þá frí. Það á að vera lokað þennan dag. Ég held að folk geti alveg komist að þó það sé ekki opið þennan dag. Fólk væri þá kannski með smá svona fyrirhyggju,“ sagði Gísli Þór.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×