Innlent

Pirraður nágranni veittist að lögreglumanni

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Horft yfir nýtt hverfi sem rís þessa dagana við hlið Smáralindar.
Horft yfir nýtt hverfi sem rís þessa dagana við hlið Smáralindar. Vísir/Vilhelm
Æfur Kópavogsbúi réðst á lögreglumann í nótt. Maðurinn er sagður hafa kvartað undan hávaða sem barst frá íbúð einni í fjölbýlishúsi í Kópavogi skömmu eftir miðnætti. Þegar lögreglumenn mættu á svæðið á þó ekki að hafa heyrst neitt frá íbúðinni. Í skeyti lögreglunnar segir að maðurinn sem tilkynnti um hávaðann hafi hins vegar verið áminntur og hann beðinn um að „vera ekki með læti á þessum tíma,“ eins og það er orðað.

Hann hafi hins vegar ekki látið sér segjast og er hann sagður hafa mætt aftur út á stigagang og óskað eftir því að leggja fram kvörtun vegna nágranna sinna. Lögreglumennirnir hafi hins vegar ekki viljað verða við þeirri bón.

Þá er maðurinn sagður hafa snöggreiðst og ráðist að lögreglumanni með hnefahöggi. Maðurinn var yfirbugaður, handtekinn og fluttur í fangageymslu þar sem hann hefur mátt hírast í nótt. Þegar lögreglumenn fóru inn í íbúð mannsins eru þeir sagðir hafa rekið augun í eggvopn, skotvopn og eitthvað magn skotfæra - sem lögreglan lagði hald á.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×