Erlent

Hamas lýsa yfir vopnahléi

Samúel Karl Ólason skrifar
Ísraelsmenn gerðu árásir á minnst 150 skotmörk á Gasa í dag.
Ísraelsmenn gerðu árásir á minnst 150 skotmörk á Gasa í dag. Vísir/AP
Forsvarsmenn Hamas segja að vopnahlé hafi náðst á Gasaströndinni og það hafi tekið gildi. Ísraelar segja hins vegar að engin sátt hafi náðst í kjölfar átaka í tvo daga. Hins vegar verði „þögn svarað með þögn“. Undanfarnar vikur hefur sprengjum reglulega rignt sitt hvoru megin við landamærin en síðustu tvo daga hefur ástandið þótt sérstaklega slæmt.

Ísraelsmenn gerðu árásir á minnst 150 skotmörk á Gasa í dag og í gær og tugum sprengja og eldflauga hefur verið skotið að Ísrael. Þrír eru sagðir hafa fallið á Gasa. Einn meðlimur Hamas auk óléttrar konu og 18 mánaða barns hennar. Sjö særðust í Ísrael.

Í samtali við Reuters segir palestínskur embættismaður að Egyptar hafi komið að vopnahléinu.



Eftir að langdrægri eldflaug var skotið að Ísrael sprengdu Ísraelar fimm hæða hús sem þeir sögðu að eldflaugum hefði verið skotið frá. Fyrst var smáum sprengjum varpað á húsið, svo íbúar myndu yfirgefa það, og var því fylgt eftir með loftárás sem jafnaði húsið við jörðu. Hamas neita því að hafa notað húsið.

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, sagði í kvöld að öryggissveitir landsins myndu halda áfram að „beita afli gegn hryðjuverkasamtökum“.

Samkvæmt Times of Israel telja yfirvöld ríkisins að ómögulegt sé að gera langvarandi vopnahlé við Hamas og er verið að skoða að grípa til umfangsmikilla aðgerða og senda fjölda hermanna inn á Gasa. Markmiðið væri ekki að reka Hamas frá Gasa, heldur að þvinga þá til að komast að samkomulagi við Ísrael.


Tengdar fréttir

Stillt til friðar á Gasa

Ísrael og Hamas hafa samið um vopnahlé með aðstoð Egypta og Sameinuðu þjóðanna.

Sprengjum rignir yfir landamæri Ísrael og Gasa

Eldflaugum var skotið frá Gasaströndinni á Ísrael í dag og Ísraelar gerðu loftárásir á Gasa, þrátt fyrir að báðar fylkingar hafi rætt um árangur í vopnahlésviðræðum síðustu daga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×