Innlent

Þrír menn handteknir grunaðir um líkamsárás

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Lögregla var kölluð til húss að Auðbrekku í Kópavogi á þriðja tímanum í nótt vegna meintrar líkamsárásar.
Lögregla var kölluð til húss að Auðbrekku í Kópavogi á þriðja tímanum í nótt vegna meintrar líkamsárásar. Vísir/Vilhelm
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók í nótt þrjá menn sem grunaðir eru um líkamsárás í húsi við Auðbrekku í Kópavogi. Tilkynnt var um líkamsárásina á þriðja tímanum í nótt.

Mennirnir voru vistaðir í fangageymslu lögreglu fyrir rannsókn málsins. Þetta kemur fram í dagbók lögreglu.

Tvær bifreiðar voru stöðvaðar á Reykjanesbraut síðastliðinn sólarhring, önnur laust eftir klukkan níu í gærkvöldi og hin klukkan eitt í nótt. Ökumenn beggja bíla voru grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna og sá sem var stöðvaður um níuleytið í gærkvöldi er einnig grunaður líkamsárás, vörslu fíkniefna og fleira. Hann var vistaður í fangageymslu lögreglu fyrir rannsókn málsins.

Önnur bifreið var stöðvuð á Hafnafjarðarvegi á þriðja tímanum í nótt. Ökumaðurinn er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna.

Klukkan hálf níu í gærkvöldi var bifreið stöðvuð við Jafnasel. Ökumaður er grunaður akstur undir áhrifum fíkniefna auk þess sem bifreiðin reyndist ekki hafa verið skoðuð á ætluðum tíma og voru skráningarnúmer klippt af af þeim sökum.

Laust eftir miðnætti var bifrið stöðvuð á Reykjanesbraut við Smáralind eftir hraðamælingu 126/80 km/klst. Er ökumaðurinn einnig grunaður um ölvun við akstur.

Þá var bifreið stöðvuð við Norðurfell. Ökumaður bifreiðar er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna og ítrekaðan akstur án réttinda. Maðurinn hefur aldrei öðlast ökuréttindi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×