Skoðun

Ísland axlar ábyrgð

Guðlaugur Þór Þórðarson skrifar

Í síðustu viku náðist samstaða í ríkjahópi Vesturlanda hjá Sameinuðu þjóðunum um að Ísland gefi kost á sér til að taka það sæti sem losnaði í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna við úrsögn Bandaríkjanna. Þetta þýðir að Ísland verður, ef að líkum lætur, eitt í kjöri í aukakosningum til ráðsins sem haldnar verða í allsherjarþinginu um miðjan mánuðinn.

Ísland hefur ekki áður setið í mannréttindaráðinu en hefur aftur á móti látið að sér kveða í krafti áheyrnaraðildar. Sjálfur ávarpaði ég ráðið, fyrstur íslenskra utanríkisráðherra, í febrúar í fyrra og fyrr á þessu ári fór ég aftur til Genfar í sama tilgangi.

Framganga Íslendinga í mannréttindamálum hefur vakið athygli. Við höfum reynst ötulir talsmenn kynjajafnréttis og réttinda hinsegin fólks. Auk þess höfum við verið í broddi fylkingar ríkja sem vekja athygli á slæmu ástandi mannréttindamála á Filippseyjum. Þau mál komu síðast til umfjöllunar fyrir tæpum tveimur vikum þegar fastafulltrúi Íslands talaði í nafni næstum fjörutíu aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna. Slagkraftur slíkra skilaboða er auðvitað þeim mun meiri sem samstaðan um þau er víðtækari.

Sjálfur vakti ég athygli á því í ávarpi mínu í lok febrúar að það skyti skökku við að Filippseyjar, Sádi-Arabía, Venesúela og Egyptaland ættu sæti í mannréttindaráðinu, ríki sem reglulega væru gagnrýnd fyrir mannréttindabrot. Brýnt er að gera umbætur á starfi ráðsins. Þótt ekki sé öruggt að árangur náist mun Ísland beita sér í þá veru og þannig stuðla að því að gera mannréttindum enn hærra undir höfði á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.

Ísland mun taka skýra afstöðu í mannréttindaráðinu en um leið miðla málum í þágu mannréttinda. Ég tel Ísland vel undir það búið að axla þá ábyrgð. Því ber að fagna að Íslandi gefist tækifæri til að láta gott af sér leiða með svo afgerandi hætti. Má rifja upp í þessu samhengi að sjötíu ár eru nú liðin frá samþykkt mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna. Hún er auðvitað hornsteinninn sem byggt er á, tímamóta­skjal sem vert er að halda í heiðri.

Höfundur er utanríkisráðherra


Tengdar fréttir

Ísland gefur kost á sér í mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna

Ísland gefur kost á sér í mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna. Samstaða hefur náðst í ríkjahópi Vesturlanda hjá Sameinuðu þjóðunum um að Ísland gefi kost á sér til að taka sæti Bandaríkjanna í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×