Skoðun

Moldin og hlýnun jarðar

Ólafur Arnalds skrifar
Ríkisstjórn Íslands leggur áherslu á loftslagsmál og sjálfbæra nýtingu landsins. Hér er fjallað um nokkur atriði sem mikilvægt er að hafa í huga, ekki síst mikilvægi moldarinnar og ástand vistkerfa.

Loftslag jarðarinnar er að hlýna vegna gróðurhúsaáhrifa koltvísýrings CO2 og fleiri lofttegunda. Kolefnið (C) er undirstaða lífsins á jörðinni og er í stöðugri hringrás á milli andrúmslofts, gróðurs og jarðvegs. Það er hollt að bera saman magn kolefnis í andrúmslofti, gróðri og mold. Heldur meira er af kolefni í andrúmsloftinu (um 790 Tg) en gróðri á jörðinni (um 620 Tg) en samsvarandi gildi fyrir mold er 3-4000 Tg1. Með öðrum orðum: það er tvöfalt meira kolefni í moldinni en gróðri og andrúmsloftinu samanlagt. Skiptir þetta máli fyrir aukningu CO2 í andrúmsloftinu og hnattræna hlýnun? Heldur betur!

Það er ekki aðeins notkun jarðefnaeldsneytis sem hefur aukið styrk gróðurhúsalofttegunda, vænn hluti aukningar þeirra í andrúmsloftinu á rætur að rekja til hnignunar vistkerfa. Ofnýting landbúnaðarlands leiðir til þess að gengið er á lífrænan forða jarðvegsins sem getur losað ógrynni CO2 til andrúmsloftsins. Nýleg skýrsla Landbúnaðarháskóla Íslands2 leiðir í ljós að losun af þessu tagi hérlendis er af sambærilegri stærðargráðu og öll losun frá iðnaði, samgöngum og sjávarútvegi samtals, jafnvel mun meiri. Þá er áætlað að losun á gróðurhúsalofttegundum frá framræstum votlendum á Íslandi sé meiri en losun frá iðjuverum og samgöngum landsins. Það er afskaplega hollt að hafa þetta samhengi hlutanna í huga við ákvarðanatöku á mótvægisaðgerðum vegna hlýnunar andrúmsloftsins.

Brýnast að draga úr losun

Vitaskuld er það brýnast að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda – að minnka vistspor jarðarbúa, ekki síst með hægari fólksfjölgun (eða jafnvel fólksfækkun). Þar á eftir koma ýmis ráð, t.d. minnkuð orkunotkun sem byggir á bruna jarðefnaeldsneytis og minnkað vistspor í framleiðslu og neyslu. En jafnframt er ljóst að minnka þarf losun frá vistkerfum og að taka að binda kolefni úr andrúmsloftinu í vistkerfum jarðar á ný. Um leið eykst frjósemi vistkerfa og framleiðni þeirra með tímanum. Helstu umhverfissamningar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál, fjölbreytileika lífsins, jarðvegsvernd sem og „heimsmarkmið“ SÞ um sjálfbæra þróun mætast í kröfunni um verndun og endurheimt vistkerfa.

Á undanförnum árum hefur verið lögð aukin áhersla á kortlagningu jarðvegs um heim allan, m.a. í þágu landbúnaðar og til þess að auka þekkingu á kolefnishringrás jarðvegsins, enda gríðarlega mikilvægur hlekkur með tilliti til gróðurhúsaáhrifa. 



Illa farið land í nágrenni Reykjavíkur þar sem unnt væri að endurheimta birkiskóga og votlendi sem áður huldu landið. Þetta svæði andar nú frá sér miklu magni koltvísýrings.
Hvar er moldin að losa CO2? Hverjir eru möguleikarnir til að binda CO2? Þá er einnig mikilvægt að líta til ástands landsins. Íslendingar er komnir skammarlega stutt á veg með að kortleggja jarðveg landsins. Meira er vitað um ástand vistkerfa, m.a. rof, gróðurhulu og helstu gróðurflokka og vistgerðir landsins. En mikilvægt er að tengja betur saman loftslagsmál, kolefni í mold og vistkerfum og ástand vistkerfa. Slík vinna þarf að byggja á traustum vísindalegum grunni og vera óháð „hagsmunaaðilum“. En kortlagning jarðvegs er ekki síður mikilvæg sem almennur hluti af þekkingu á náttúrufari landsins.

Íslendingar eiga hreint ótrúlega möguleika á að binda kolefni með endurheimt vistkerfa landsins. Eftir því sem ástandið er verra er ávinningurinn meiri. Eðli íslenskrar eldfjallajarðar er að hún bindur meira kolefni en allur annar þurrlendisjarðvegur á jörðinni og rannsóknir sýna að bindingin er bæði ör og varanleg. Þá er hægt er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda hérlendis nú þegar með endurheimt votlendis og með því að laga sauðfjárbeit landsins að landkostum enda er nóg af vel grónu landi til beitar fyrir núverandi bústofn. En við þurfum að hætta að beita illa gróið land og viðkvæm hálendissvæði. Kjötframleiðsla á slíkum svæðum er trúlega með hvað neikvæðasta vistspor sem þekkist á jörðinni (mjög hátt kolefnisspor sauðfjárframleiðslu almennt, gríðar­lega neikvæð umhverfisáhrif af beit á illa förnu landi auk tapaðra möguleika á kolefnisbindingu).

Endurheimt votlendis og breyttir beitarhættir ættu að vera sjálfsagður liður í útfærslu á umhverfismarkmiðum núverandi ríkisstjórnar, annars væri framkvæmdin eiginlega marklaus. Þetta verkefni kallar á allar hendur á dekk. Það er mikilvægt að allir geirar umhverfismála landsins vinni saman að þessum fjölþættu markmiðum. Vonandi berum við gæfu til þess.

1 Tölur um kolefni í vistkerfum á jörðinni: Weil og Brady 2017. The nature and properties of soils. 15 útg., Pearson.

2 Jón Guðmundsson 2017. Greining á losun gróðurhúsalofttegunda frá landbúnaði. LbhÍ; úttekt unnin fyrir umhverfis- og auðlindaráðuneytið.

Höfundur er prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands




Skoðun

Sjá meira


×