Skoðun

Ekki svo flókið

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Það er ekki ofsögum sagt að íslensk fyrirtæki standi frammi fyrir breyttri heimsmynd. Alþjóðavæðing, breytt neytendahegðun og stórstígar tækniframfarir hafa leitt til harðvítugrar samkeppni og þurrkað út landamæri að nánast öllu leyti nema að nafninu til með þeim afleiðingum að heimurinn fer stöðugt minnkandi.

Við þessu þurfa fyrirtæki, sér í lagi á örmarkaði eins og þeim íslenska, nauðsynlega að bregðast ætli þau sér ekki að verða undir í samkeppninni. Þau verða að leita allra leiða til þess að hagræða og spara. Fyrir mörg þeirra er það einfaldlega lífsspursmál.

Það er því ekki nema von að ýmsir stórir samrunar standi fyrir dyrum, sér í lagi á smásölumarkaði, þar sem fyrirtæki reyna að mæta samkeppni að utan, hvort sem er frá verslunarrisum á borð við Costco og H&M eða netrisum eins og Amazon og ASOS.

Samkeppnisyfirvöld þurfa, ekki síður en fyrirtæki, að taka mið af breyttri heimsmynd í stað þess að reiða sig áfram á úreltar markaðsskilgreiningar. Jafnframt verða þau að hraða rannsóknum sínum á samrunamálum. Það þýðir ekki að fyrirtæki bíði mánuðum, ef ekki árum, saman upp á von og óvon á meðan yfirvöld gera upp hug sinn.

Fjórtán mánuðir eru frá því að Hagar og Olís skrifuðu undir kaupsamning og átta mánuðir síðan N1 og Festi gerðu slíkt hið sama. Engu að síður er enn óvíst hvenær niðurstöður liggja fyrir. Til samanburðar tók það bandarísk yfirvöld aðeins tvo mánuði að samþykkja kaup Amazon, stærstu netverslunar heims, á matvörurisanum Whole Foods. Samrunar upp á fáeina tugi milljarða króna á litla Íslandi geta vart verið flóknari en slík 1.500 milljarða króna risakaup.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×