Skoðun

Ísland verði leiðandi í jafnrétti

Guðrún Ragnarsdóttir skrifar
Við Íslendingar erum af flestum talin leiðandi í heiminum í jafnrétti kynjanna en við eigum samt ennþá langt í land til þess að ná fullkomnu jafnrétti. Hlutfall kvenna í stjórnum fyrirtækja stendur í stað á milli ára. Lög um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja sem ná til fyrirtækja með 50 starfsmenn eða fleiri hafa ekki veitt konum aukin völd innan stjórna og framkvæmdastjórna. Vonir stóðu til þess að um leið og konum fjölgaði í stjórnum myndi þeim einnig fjölga í framkvæmdastjórnum og öðrum stjórnendastöðum. Það hefur ekki gengið eftir.

Til þess að takast á við þetta flókna verkefni hefur FKA, ásamt velferðarráðuneytinu, Sjóvá, Deloitte, Pipar/TWBA og Morgunblaðinu, hleypt af stokkunum hreyfiaflsverkefninu Jafnvægisvoginni. Mark­miðið með verkefninu er að kynjahlutfall í framkvæmdastjórnum fyrirtækja verði 40/?60 árið 2027. Það er metnaðarfullt, en raun­hæft. Jafnrétti gerist ekki af sjálfu sér, það þarf að hafa fyrir því. Fyr­ir­tæki þurfa að vera virki­lega til­bú­in í þessa veg­ferð til að ná þessu mark­miði.

Tilgangur verkefnisins er að auka á jafnvægi kynja í efsta lagi stjórnunar fyrirtækja í íslensku viðskiptalífi. Þessu viljum við ná fram með því að virkja íslenskt viðskiptalíf til að verða að fyrirmynd jafnréttis fyrir aðrar þjóðir. Meðal þess sem við notum til að hvetja fyrirtækin til dáða er að veita viðurkenningar og draga fram í sviðsljósið fyrirtæki sem hafa náð markmiðum Jafnvægisvogarinnar. Við munum í framtíðinni standa fyrir viðburðum og fræðslu og vekja samfélagið til umhugsunar um virði fjölbreytileika og jafnvægis.

Fyrsta verkefni Jafnvægisvogarinnar er að taka saman heildræna stöðu stjórnenda í íslensku atvinnulífi og birta niðurstöðurnar. Að því búnu er mögulegt að kortleggja aðgerðir. Við viljum hvetja stjórnendur fyrirtækja á Íslandi til þess að skrifa undir viljayfirlýsingu um að hefja þessa vegferð með okkur og vinna að jöfnum tækifærum kynjanna. Takið frá 31. október því þá verður ráðstefna þar sem niðurstöður verða kynntar og fyrir­myndar­fyrirtæki kynna aðgerðir.

Höfundur er talskona Jafnvægisvogarinnar og FKA-félagskona 




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×