Skoðun

Fótboltahugsjón

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Augu heimsbyggðarinnar munu beinast að Rússlandi næsta mánuðinn en blásið verður til fyrsta leiks á HM í fótbolta í dag.

Mótið á vitaskuld sínar skuggahliðar. Djúpstæð og svo virðist sem kerfisbundin spilling hefur þrifist innan FIFA í áraraðir. Það er ekki af tilviljun að Rússland, sem er ekki rómað fyrir knattspyrnuafrek sín, var valið til þess að halda mótið. Það sama má segja um Katar og Suður-Afríku. Pútín mun eflaust nýta tækifærið til þess að slá sig til riddara á meðan hann þaggar niður í þeim sem þora að benda á alræðislega stjórnarhætti hans. Kynþáttahátur og ofbeldi gagnvart hinsegin fólki er daglegt brauð í Rússlandi, sér í lagi innan knattspyrnuhreyfingarinnar, og er ástæða þess mannréttindasamtök hafa hvatt þjóðir heims til þess að sniðganga mótið.

Sé horft á björtu hliðarnar dregur keppnin fram ýmis frjálslynd gildi. Hún umbunar ríkjum fyrir gott stjórnarfar og lætur gerræðisstjórnir ekki komast upp með svik og pretti. Aðeins fjögur ríki sem eru ófrjáls að mati Freedom House munu etja kappi á HM og ekkert þeirra er líklegt til stórræða. Fjörutíu ár eru síðan síðasta alræðisríkið sigraði keppnina.

Alþjóðafótbolti verðlaunar ríki sem horfa út fyrir landsteinana og fagna fjölmenningu. Ríki sem ráða bestu þjálfara heims, óháð þjóðerni, og leyfa innflytjendum að láta ljós sitt skína. Flestir leikmenn franska landsliðsins 1998, sem sigraði HM svo eftirminnilega, áttu ættir að rekja til annarra ríkja. Keppnin hefur auk þess notið ríkulega ávaxtanna af alþjóðavæðingu fótboltans.

Þrátt fyrir alla sína lesti sameinar HM - þegar öllu er á botninn hvolft - margar þær frjálslyndu hugsjónir sem við viljum alla jafna halda í heiðri.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×