Ben Brafman, verjandi Harveys Weinstein, lét í það skína að hann hygðist beita sömu aðferð í máli Weinsteins og hann notaði í máli Dominique Strauss-Kahn frá árinu 2011 en í því máli réðist Brafman að trúverðugleika kærandans.
„Þau höfðu náin kynni, þetta varði stutt, var með fullu samþykki og hún var viljugur þátttakandi,“ segir hann um mál Strauss-Kahn í samtali við Reuters.
Kvikmyndaframleiðandinn Harvey Weinstein, sem gaf sig fram við lögreglu í gærmorgun, er laus gegn milljón dala tryggingu. Lögregluyfirvöld í New York hafa undanfarna mánuði rannsakað ásakanir á hendur honum. Hann er ákærður í þremur ákæruliðum; fyrir nauðgun og kynferðisofbeldi gegn tveimur konum.
Fyrir utan dómshúsið í Manhattan sagði Brafman „Ef þú berð saman vitnisburði ákærenda við fyrri framburð er ljóst að kviðdómurinn mun ekki trúa þeim, að því gefnu að tólf manna kviðdómurinn samanstandi af heiðarlegum manneskjum sem eru ekki helteknar af þessari hreyfingu sem virðist hafa yfirtekið þetta tiltekna mál.“

Brafman segir að það liggi fyrir að umbjóðandi sinn muni ekki játa sig sekan. Hann hafi frá upphafi neitað þeim ásökunum sem á hann hafa verið bornar.
„Það er mjög algeng vörn í nauðgunar-og kynferðisofbeldismálum að grafa undan trúverðugleika ákærenda með gagnprófun sem endar jafnan í „hann sagði – hún sagði“ viðkvæðinu,“ segir Lisa Linsky, lögfræðingur í New York, sem segist viss um að Brafman muni láta það líta þannig út fyrir dómi að konurnar hafi kært Weinstein til þess að öðlast frægð og peninga.
Sitt sýnist hverjum um möguleika Brafmans
Bennett Gershman, prófessor í lögfræði í New York, segir Brafman eiga, vægt til orða tekið, erfitt verk fyrir höndum, „risavaxið og jafnvel óyfirstíganlegt,“ bætir Gershman við. Weinstein sé orðin táknmynd níðingsins og hann er sannfærður um að málið sé dæmt til glötunar frá upphafi.
Það besta sem Brafman gæti gert fyrir umbjóðanda sinn væri að svara fyrir ákæruatriðin og semja um lyktir málsins þannig að hann þurfi ekki að mæta fyrir rétt. Slíkur samningur myndi þó alltaf fela í sér fangelsisvist, að mati Gershmans.
Roy Black, verjandi í New York, telur þó ekki raunhæft að Brafman geti samið.