„Við erum ekkert að fara að hætta í þessari baráttu. Við erum í þessu af fullri alvöru,“ segir Guðrún Ragna Garðarsdóttir, framkvæmdastjóri Atlantsolíu. Verð á eldsneytislítranum hefur hækkað um sex krónur frá mánaðamótum þegar félagið hóf verðstríð við Costco og boðaði lægsta eldsneytisverð á Íslandi á stöð sinni í Kaplakrika í Hafnarfirði. Eldsneytisverð hefur almennt hækkað tölvuvert á undanförnum vikum hjá öllum félögum og Guðrún Ragna segir þar heimsmarkaðsverði á olíu helst um að kenna.
Fréttablaðið greindi fyrst frá því að Atlantsolía ætlaði að veita nágrönnum sínum í Costco samkeppni með lægra verði á stöð sinni í Kaplakrika þann 1. maí.
Þá keyrði félagið lítraverðið á bensíni úr 211,9 krónum niður í 189,9 krónur, eða um 22 krónur, og annað eins á dísillítranum. Síðan þá hefur hin síbreytilegi og óútreiknanlegi olíumarkaður úti í hinum stóra heimi sett strik í reikninginn.
Sjá einnig: Atlantsolía lofar lægsta eldsneytisverði Íslands
Lítraverðið á bensíni er nú komið í 195,9 krónur og hefur því hækkað um sex krónur líkt og dísillítrinn, sem í gær var kominn í 188,9 krónur. Í gær, líkt og í upphafi mánaðar, munar nú einni krónu á eldsneytislítranum hjá Atlantsolíu og Costco, þar sem Costco hefur betur. Atlantsolía hefur hins vegar bent á að stöðin í Kaplakrika er öllum opin og ekki krafist aðildarkorts eða gjalda líkt og hjá Costco.
Þrátt fyrir að Atlantsolía hafi ákveðið að taka slaginn við Costco í Kaplakrika virðast önnur olíufélög hafa setið á sér. Atlantsolía í Kaplakrika og Costco í Kauptúni bjóða enn langlægsta lítraverðið á eldsneyti, svo munar allt að 20-30 krónum á lítranum miðað við algengt verð á öðrum stöðvum.

