Erlent

Ísraelar segjast hafa skemmt nærri allar herstöðvar Íran í Sýrlandi

Samúel Karl Ólason skrifar
Ísraelar notuðust við eldflaugar, orrustuþotur og stórskotalið.
Ísraelar notuðust við eldflaugar, orrustuþotur og stórskotalið. Vísir/AFP
Varnarmálaráðherra Ísrael, Avigdor Liberman, segir að her landsins hafi í nótt skemmt nærri því allar herstöðvar Íran í Sýrlandi. Ísraelar gerðu í nótt árásir á tugi skotmarka í Sýrlandi í kjölfar þess að um 20 eldflaugum hafi verið skotið frá Sýrlandi að Gólanhæðum. Liberman varaði yfirvöld Íran við að storka Ísrael og sagði að öllum árásum yrði svarað af miklum krafti.

Aðgerðir Ísraela eru sagðar vera þær umfangsmestu sem her ríkisins hafi gripið til í mörg ár.

„Ef það rignir í Ísrael, mun flæða í Íran,“ sagði Liberman á blaðamannafundi í morgun. Hann tók sérstaklega fram að Ísrael hefði engan áhuga á aukinni spennu á svæðinu en að þeir myndu ekki sætta sig við ógnanir og árásir.



Engan mun hafa sakað í árásunum á Gólanhæðir og segir Liberman að allar eldflaugarnar hafi verið skotnar niður eða þær hafi hrapað. Yfirvöld Sýrlands segjast hafa skotið tugi eldflauga Ísraela niður en að örfáar hafi komist í gegnum varnir þeirra. Ríkissjónvarp Sýrlands birti í nótt nokkur myndbönd sem eiga að sýna eldflaugavarnir ríkisins skjóta niður eldflaugar.



Árásir Ísraela voru ekki eingöngu gerðar með eldflaugum en orrustuþotur voru einnig notaðar sem og stórskotalið. Talsmaður hers Ísrael, Jonathan Conricus, segir að engin orrustuþota hafi verið skotin niður en skotið hafi verið að þeim.

 

Yfirvöld Ísrael höfðu búist við árásum sem þessum í kjölfar árása þeirra á Írani í Sýrlandi. Búið var að opna sprengjuskýli víða um landið og varalið kallað út.

Syrian Observatory for Human Rights, sem rekur umfangsmikið net heimildarmanna í Sýrlandi, segir að minnst 15 hafi fallið í árás Ísrael á skotfærageymslu og að átta íranskir hermenn hafi fallið í annarri árás.


Tengdar fréttir

Vestrænir leiðtogar harma ákvörðun Trump

Stjórnvöld í Bretlandi, Frakklandi, Þýskalandi, Rússlandi og Kína segjast öll vera staðráðin í að halda kjarnorkusamningnum við Íran til streitu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×