Skoðun

Frelsi til sjálfstæðs lífs

Ásmundur Alma Guðjónsson skrifar
Borgararéttindi eru ein af meginstoðum í stefnumálum Pírata, og er ein af grunnstefnum flokksins. Þar segir að Píratar styðji eflingu og verndun borgararéttinda og að útvíkkun þeirra skuli miða að því að styrkja önnur réttindi.

Við höfum öll rétt á því að fara fram úr rúminu, klæða okkur, fara á klósettið, baða okkur og borða, og sinna öllum okkar grunn þörfum án þess að vera háð aðstoð frá fjölskyldu og vinum. Það að geta lifað sjálfstæðu lífi er eitthvað sem fyrir okkur flest er sjálfsagður hlutur en við erum ekki öll svo heppin. Þetta er nefnilega ekki sjálfsagt mál fyrir fatlað fólk.

Notendastýrð persónuleg aðstoð, eða NPA, er sveigjanlegt þjónustuform sem auðveldar fötluðu fólki að lifa sjálfstæðu lífi. Samkvæmt rannsókn sem unnin var fyrir bæði velferðarráðuneytið og iðnaðarráðuneytið hefur það sýnt að fólk sem fær slíka þjónustu er mun líklegra til að vera í vinnu eða stunda nám, eiga virkt félagslíf, búa í eigin húsnæði og vera með börn á sínu framfæri.

Nú á dögunum samþykkti Alþingi að NPA væri lögbundin þjónusta sem sveitarfélögunum bæri að veita til þeirra sem hana þurfa. 20-30 árum eftir að hin Norðurlöndin hafa tekið hana upp. Boltinn er núna hjá sveitarfélögunum að koma henni í framkvæmd. Þetta snýst um mannréttindi fólks, þeirra frelsi til þess að lifa sjálfstæðu lífi og möguleika þeirra til að vera þáttakendur í samfélaginu og virkir borgarar.

Við Píratar í Kópavogi viljum setja það í forgang að sveitarfélagið bjóði fötluðu fólki upp á þessa þjónustu og styrki hana. Kjósum Pírata 26. maí.

Höfundur er í þriðja sæti fyrir Pírata í Kópavogi.




Skoðun

Sjá meira


×