Umræddu ákvæði var breytt árið 2011 til að bregðast við niðurstöðu ESA um að ríkisábyrgð sé aðeins heimil að því gefnu að hæfilegt ábyrgðargjald sé greitt fyrir hana sem svari að fullu til þeirrar ívilnunar sem viðkomandi nýtur í formi hagstæðari kjara umfram þau kjör sem almennt bjóðast á markaði án ríkisábyrgðar.
Vaðlaheiðargöng hf. greiddu hins vegar svokallað áhættugjald sem nam 0,6 prósentum af lánsfjárhæðinni og losnaði þar með undan ábyrgðargjaldinu eins og 7. grein laganna kveður á um.
Björn segir í samtali við Fréttablaðið að kanna þurfi hvað ráði því hverju sinni hvort ríkisábyrgðarþegar greiði áhættugjald eða ábyrgðargjald, en hann telur einsýnt að í tilviki Vaðlaheiðarganga hefði ábyrgðargjaldið orðið mun hærra en áhættugjaldið sem innheimt var hjá Vaðlaheiðargöngum hf.
Björn hefur ítrekað reynt að afla upplýsinga hjá stjórnvöldum til að varpa megi ljósi á málsmeðferðina í tengslum við veitingu ríkisábyrgðarinnar en segir svörin sem hann fái ævinlega hafa verið misvísandi. Hann ákvað því að hætta að óska eftir minnisblöðum og spyrja spurninga en kalla frekar eftir öllum gögnum sem til eru í fjármála- og efnahagsráðuneytinu um málið.

„Það er allt gert til að koma í veg fyrir að það þurfi að afhenda þessi gögn. Ég er stöðugt að minna á að ég vilji fá þau en beiðnin er enn ekki farin til ráðuneytisins frá nefndinni,“ segir Björn en málið hefur verið til umræðu í nefndinni undanfarna daga. Björn kveður þá nefndarmenn sem standa að beiðninni ítrekað hafa verið spurða hvort þeir væru vissir um að þeir þyrftu og vildu þessi gögn og hvort ekki dygði að kalla eftir minnisblaði frá ráðuneytinu og nýju lögfræðiáliti.
Björn kvaðst hafa tekið hugmynd að lögfræðiáliti fagnandi og er hann þegar búinn að draga upp drög að ítarlegum spurningalista í 14 liðum fyrir það álit en vilji engu að síður fá hrágögnin úr ráðuneytinu enda lítið gagn að lögfræðiálitinu einu, enda þurfi hann ekki lagatúlkun heldur upplýsingar um framkvæmdina og feril málsins í ráðuneytinu.