Innlent

Tveir festust eftir hrakfarir Grímkels

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Grímkell er köttur - rétt eins og þessi hér.
Grímkell er köttur - rétt eins og þessi hér. Vísir/Getty
Lögreglan þurfti að taka á honum stóra sínum í gærkvöldi þegar henni barst tilkynning um kött í sjálfheldu. Kötturinn Grímkell hafði þá einhvern veginn komið sér út á eyju í syðstu tjörninni í Hljómskálagarðinum og sögðu vegfarendur að hann vældi óstjórnlega.

Þegar lögreglumenn komu á vettvang á tíunda tímanum í gærkvöldi sáu þeir að fátt annað var í stöðunni en að vaða út í tjörnina og reyna að bjarga kettinum. Það tókst þó ekki betur en svo að lögreglumaðurinn, sem greinilega hefur dregið stysta stráið, festi sig í mikilli drullu á leiðinni og varð því að snúa til baka.

Ákváðu lögreglumennirnir því að kalla á slökkviliðið því að þeim reyndist gjörsamlega ógerlegt að ná til Grímkels.

Að sögn lögreglunnar mættu fjórir slökkviliðsmenn á vettvang og fór einn út í tjörnina í vöðlum. Hann, rétt eins og lögreglumaðurinn, festi sig líka.

Var þá settur stigi yfir á eyjuna til að þess að slökkviliðsmaðurinn gæti komist að kettinum en þá „var næstum í óefni komið þegar slökkviliðsmaðurinn komst að kettinum því hann festist í drullu en náði að lokum að losa sig og koma kettinum óhultum af eyjunni,“ eins og það er orðað í skeyti lögreglunnar.

Grímkell er þó sagður hafa verið „mjög blíður“ en „vældi mikið.“ Tilkynnandi tók svo við kettinum og lofaði að fara með Grímkel að heimili hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×