Innlent

Vilja gera RÚV að áskriftarsjónvarpi

Baldur Guðmundsson skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er formaður Miðflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er formaður Miðflokksins. Vísir/Ernir
Miðflokkurinn vill fjölga lögreglumönnum um land allt og efla þjálfun þeirra og búnað. Flokkurinn vill einnig setja á fót öryggis- og varnarmálastofnun, gera RÚV að áskriftarsjónvarpi, hækka lífeyrisgreiðslur til öryrkja og eldri borgara og lækka skatta. Hann vill afnema verðtryggingu, skerðingar bóta og erfðafjárskatt.

Flokkurinn vill nýta gas- og olíulindir í íslenskri lögsögu enda muni notkun þessara efna aukast mikið á heimsvísu á komandi árum.

Þetta er á meðal þess sem fram kemur í drögum að ályktunum landsþings Miðflokksins, sem fer fram um helgina.

Í drögunum er talað um að skynsemisstefna sé mikilvæg og að leita þurfi bestu og skynsamlegustu lausnanna með því að hlusta á öll sjónarmið. Ákvarðanir skuli byggja á rökum. Flokkurinn vill draga úr valdi embættismanna.

„Stjórnmálamenn eru fulltrúar almennings, ábyrgir fyrir að leiða samfélagið eftir þeirri stefnu sem þeir hafa boðað. Á undanförnum árum hafa stjórnmálamenn hins vegar fært völd í allt of ríkum mæli yfir á hendur embættismannakerfisins, nefnda, hagsmunaafla og fleiri aðila. Þegar stjórnmálamenn gefa frá sér ákvörðunarvaldið og ábyrgðina á þann hátt skerðist vald almennings um leið og lýðræðið virkar þá ekki eins og skyldi,“ segir í tilkynningu frá flokknum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×