KA hafði betur gegn HK í fyrsta leik í einvígi liðanna í umspili um laust sæti í Olís deild karla á næsta tímabili.
Heimamenn í KA voru tveimur mörkum yfir í hálfleik, 12-10 og sigruðu leikinn með fjórum mörkum, 24-20.
Áki Egilsnes átti frábæran leik fyrir KA og skoraði 10 mörk, næstur kom Sigþór Árni Heimisson með fjögur. Í liði HK var Kristján Ottó Hjálmsson atkvæðamestur með 6 mörk.
KA sat hjá í undanúrslitunum þar sem liðið endaði í 2. sæti Grill 66 deildar en HK hafði betur gegn Þrótti í undanúrslitunum.
Sigra þarf þrjá leiki til þess að vinna einvígið, næsti leikur fer fram í Digranesi á þriðjudaginn.

