Körfubolti

Jakob bjargaði Borås frá sumarfríi

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Jakob í leik með Borås.
Jakob í leik með Borås. vísir/getty
Þrír þristar í röð frá Jakobi Erni Sigurðarsyni hjálpuðu endurkomu Borås gegn Norrköping sem kom í veg fyrir að Borås færi í snemmbúið sumarfrí í sænsku úrvalsdeildinni í körfubolta.

Fyrir leikinn í kvöld var Norrköping með 2-0 forystu í einvígi liðanna í undanúrslitunum. Leikurinn var lengst af nokkuð jafn en heimamenn í Norrköping áttu þó nokkur áhlaup og komust í tvígang í átta stiga forystu.

Sjö stiga munur var á liðunum þegar þrjár mínútur voru liðnar af fjórða leikhluta þegar íslenski landsliðsmaðurinn setti þriggja stiga skot. Norrköpping svaraði með tveimur stigum áður en Jakob Örn setti aðra tvo þrista í næstu tveimur sóknum Borås og jafnaði leikinn.

Eftir það var leikurinn í járnum. Þegar átta sekúndur voru eftir var brotið á Jakobi Erni og hann fór á vítalínuna og kom Borås í fjögurra stiga forystu. Það urðu síðustu stig leiksins og mikilvægur útisigur í höfn sem tryggir Borås að minnsta kosti einn leik í viðbót.

Jakob endaði með 15 stig, sex fráköst og þrjár stoðsendingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×