Innlent

Tveir hafa stöðu sakbornings í tengslum við flótta Sindra

Elín Margrét Böðvarsdóttir og Þórhildur Erla Pálsdóttir skrifa
Ekkert hefur spurst til Sindra Þórs Stefánssonar sem strauk frá fangelsinu að Sogni aðfaranótt þriðjudags. Lögreglan leitar nú að leigubílstjóra sem ók Sindra að flugstöðinni í Keflavík. Sindra tókst að yfirgefa landið nokkrum klukkustundum eftir að hann flúði fangelsið. Ekkert hefur til hans spurst eftir að hann lenti á Arlanda flugvellinum í Stokkhólmi í gær að sögn Gunnars Schram aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á Suðurnesjum.

„Við höfum ekkert staðfest um það hvar hann sé, í hvaða landi, hvort hann sé í Svíþjóð. Á þessum tíma sem er liðinn gæti hann náttúrulega hafa komið sér víða,“ segir Gunnar.

Lögregla óskar eftir að ná tali af leigubílstjóranum sem ók Sindra að flugstöðinni. Bílinn er grár skutbíll frá Skoda. Þrátt fyrir ýmsar ábendingar hefur ekki tekist að hafa uppi á bílstjóranum og er aðkoma hans að málinu því ekki þekkt sem stendur.

„Okkur hafa borist ábendingar vegna þess sem við erum að skoða eins og staðan er núna. Þrátt fyrir að við höfum haft samband við þessar helstu leigubílastöðvar og í gær kom þetta skýrt fram í fjölmiðlum hvaða tegund leigubíllinn væri og tímasetning. Það hefur ekkert gefið okkur enn þá,“ segir Gunnar.

Alls hafa fjórir verið yfirheyrðir í tengslum við leitina að Sindra en af þeim hafa tveir stöðu sakbornings, grunaðir um aðild að flótta hans.


Tengdar fréttir

Færri strjúka úr fangelsum hér en á hinum Norðurlöndunum

Sjö hafa strokið úr íslenskum fangelsum á undanförnum áratug. Ekki er munur á tíðni stroks úr opnum eða lokuðum fangelsum. Strok úr opnum fangelsum er algengara á Norðurlöndunum. Opin fangelsi sögð skipta miklu fyrir betrun fanga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×