Innlent

Ferðamenn á Íslandi í æ meira mæli ósáttir við fjölda ferðamanna

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Ferðamönnum hefur fjölgað mikið á Íslandi undanfarin ár.
Ferðamönnum hefur fjölgað mikið á Íslandi undanfarin ár. Vísir/Ernir
Niðurstöður rannsókna sýna að ferðamenn á Íslandi eru í æ meira mæli ósáttir við fjölda ferðamanna hér á landi. Nýjustu tölur frá vinsælum ferðamannastöðum hér á landi sýna að 30-55 prósent ferðamanna þykir fjöldi ferðamanna of mikill.

Þetta kemur fram í skýrslu Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur ferðamálaráðherra um þolmörk ferðamennsku hér á landi. Fjallað er um skýrsluna á vef Fréttablaðsins.

Í skýrslunni kemur fram að fjölgun erlendra ferðamanna hér á landi hafi farið langt fram úr meðalvexti á heimsvísu undanfarin ár. Í skýrslunni segir að almennt virðist ferðamenn á Íslandi vera viðkvæmir gagnvart umferð annarra ferðamanna.

Vísir
„Þetta kemur ekki á óvart og rímar einnig við meginaðdráttarafl og ímynd Íslands sem ferðamannalands. Á víðernum og í ósnortinni náttúru býst fólk við fáum öðrum ferðamönnum. Það er hluti af ímynd svæðanna sem áfangastaðar ferðamanna,“ segir í skýrslunni.

Þar segir einnig að álag ferðamennsku á Suðurlandi, þar sem margir af vinsælustu áfangastöðum ferðamanna eru staðsettir, sé farið að reyna á þolrif íbúa og ferðamanna, náttúru svæðisins og innviði.

„Rúmlega 40% íbúa þykir ferðamannafjöldinn á sumrin of mikill og 40% íbúa telja að landshlutinn geti ekki tekið á móti fleiri ferðamönnum,“ segir í skýrslunni.

Í skýrslunni kemur einnig fram að álagið af vaxandi fjölda ferðamanna sé farið að valda miklum náttúruspjöllum á vinsælum ferðamannastöðum, sem hafi áhrif á upplifun ferðamanna

„Samkvæmt úttektum Umhverfisstofnunar á friðlýstum svæðum á Suðurlandi eru tvö svæði, Geysir og Skógafoss, orðin það illa leikin að þau eru í hættu og staðir eins og Dyrhólaey, Dverghamrar og Gullfoss ekki í mikið betra ástandi. Öll þessi svæði bera merki um að innviðir anna ekki umferð ferðamanna og skort á stýringu, vörslu og vöktun. Stígar eru almennt illa farnir og mikið er um villustíga, traðk og gróðurog jarðvegsrof, einkum á Geysi og Gullfosssvæðinu, þar sem gróður er viðkvæmur og jarðvegur gjarnan blautur,“ segir í skýrslunni, sem nálgast má hér.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×