Skoðun

Man-Flú

Haukur Örn Birgisson skrifar
Til er sá sjúkdómur sem fylgt hefur mannskepnunni frá örófi alda. Þetta er sjúkdómur sem hlýtur að vera einni eða tveimur efnasamsetningum frá malaríu, ebólu og svarta dauða – svo skæður getur hann verið. Til allrar lukku getur sjúkdómurinn þó einungis lagst á helming mannskyns og má leiða að því líkur að mannfólkið sé ekki í útrýmingarhættu af þeim sökum. Það er því ótrúlegt til þess að hugsa að sjúkdómurinn mæti vanþekkingu og lítillækkandi hæðni af hálfu hins helmings mannskynsins.

Einkenni mannaflensunnar (latína: homo influentia) eru einna helst svæsið nefrennsli, skerandi hósti, raðhnerrar, stormasamir höfuðverkir, nístandi beinverkir, hiti sem fær blóðið til að sjóða í æðunum og annar almennur slappleiki. Konur sem fætt hafa börn komast líklegast næst því að ímynda sér vanlíðanina sem fylgir því að bera sjúkdóminn.

Ég hef nokkrum sinnum lotið í lægra haldi fyrir þessum skæða vágesti og er farinn að þekkja að ef ég lifi af fyrsta sólarhringinn, þá mun ég líklegast á endanum ná tímabundnum bata – eða þar til ég smitast næst. Hvorki konan mín né samstarfskonur sýna ástandi mínu mikinn skilning og gera reglulega grín þegar ég leita til þeirra á mínum veikustu stundum, í von um viðurkenningu og tillitssemi.

Á meðan sjúkdómurinn og við sjúkdómsberarnir búum við fordóma af hálfu helmings samfélagsins, er mikilvægt að fram fari opin og málefnaleg umræða um hætturnar sem steðja að. Ég skora því á vísindasamfélagið allt að leggjast í rannsóknir og birta niðurstöðurnar í öllum fréttatímum. Þá fyrst getum við karlmenn skilað skömminni og vonandi notið örlítillar nærgætni af hálfu maka okkar þegar við liggjum heima í Star Wars náttfötunum með snýtiklútinn.




Skoðun

Sjá meira


×