Körfubolti

„Stjórn FIBA horfir á Taylor taka viljandi högg í hnakkann á Hlyni“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Hrafn Kristjánsson, þjálfari Stjörnunnar.
Hrafn Kristjánsson, þjálfari Stjörnunnar. Vísir/Bára
Hrafn Kristjánsson, þjálfari Stjörnunnar, var virkilega ósáttur út í dómara leiks ÍR og Stjörnunnar í 8-liða úrslitum Domino’s deildar karla í körfubolta í kvöld. ÍR vann leikinn með þremur stigum 67-64 og er með 2-1 forystu í einvígi liðanna.

Í fyrsta leikhluta braut Ryan Taylor, leikmaður ÍR, á Hlyni Bæringssyni og fékk fyrir það óíþróttamannslega villu. Hrafn var mjög ósáttur við það þar sem hann vildi fá Taylor rekinn út úr húsi fyrir að slá viljandi í höfuðið á Hlyn.

„Það er svakalega leiðinlegt að verða vitni af því sem gerðist hér í fyrri hálfleik. Við erum með þrjá virkilega færa dómara sem eru vel staðsettir og stjórn FIBA að horfir á Taylor taka viljandi högg í hnakkann á Hlyni,“ sagði Hrafn eftir leikinn.

„Það er dæmt frá dómaranum sem stendur lengst frá. Ef hann sá þetta þá veit ég ekki afhverju það var ásetningur en ekki út úr húsi.“

„Fyrir mér er högg í haus eða andlit út úr húsi og því miður þá hefði það átt að vera svoleiðis núna.“

Það var mjög mikið dæmt í þessum leik og þá sérstaklega var óvenju mikið af tæknivillum, enda hiti í mönnum.

„Það er kannski bara eðlilegt miðað við hitann sem var í fólki. Þegar að fólk missir svona dóm, þegar það er vísvitandi verið að reyna að meiða leikmann úti á gólfinu, þá er eðlilegt að fólk missi stjórn á sér.“

„Það sprakk svosem í andlitið á okkur að missa stjórn á okkur og við þurfum aðeins að passa það,“ sagði ósáttur Hrafn Kristjánsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×