Erlent

Sádar skutu niður sjö eldflaugar frá Jemen

Samúel Karl Ólason skrifar
Brak úr einni eldflauginni féll í gegnum þak í Riyadh og lést einn maður frá Egyptalandi.
Brak úr einni eldflauginni féll í gegnum þak í Riyadh og lést einn maður frá Egyptalandi. Vísir/AFP
Her Sádi-Arabíu skaut í gær niður sjö eldflaugar sem skotið var frá Jemen. Þrjár voru skotnar niður yfir höfuðborg landsins Riyadh og lést einn maður frá Egyptalandi þegar hann varð fyrir braki úr einni eldflauginni. Öðrum eldflaugum var skotið að borgunum Najran, Jizan og Khamis Mushait.

Samkvæmt frétt Guardian er þetta í þriðja sinn á fimm mánuðum sem uppreisnarmenn Húta skjóta eldflaugum að Sádi-Arabíu. Það sé til marks um aukna getu Húta og gæti leitt til stærri átaka á milli Sádi-Arabíu og Íran. Sádar saka Írani um að styðja Húta og um að útvega þeim eldflaugar.

Sjá einnig: Bandaríkin saka Írana um að útvega Hútum vopn



Hútar hafa gefið út að skotmark þeirra hefði verið alþjóðaflugvöllurinn í Riyadh.

Sádar leiða bandalag Arabaríkja gegn uppreisn Húta í Jemen. Minnst tíu þúsund manns hafa látið lífið í átökunum og milljónir hafa þurft að flýja heimili sín. Þá hefur um ein milljón manna smitast af kóleru í Jemen, sem er stærsti faraldur kóleru sem vitað er um.

Hér má sjá eldflaugavarnir Sádi-Arabíu skjóta niður eldflaugar yfir Riyadh.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×