Viðskipti innlent

Verð á páskaeggjum hækkar mest í Hagkaup milli ára

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Verð á páskaeggjum milli ára hækkar mest í Hagkaup. Litlar verðhækkanir hafa orðið á páskaeggjum í öðrum verslunum síðan í fyrra, að því er fram kemur í verðkönnun Alþýðusambands Íslands.

Í könnun ASÍ kemur fram að í Hagkaup hafi 7 páskaegg af 15 hækkað í verði milli ára. Mesta verðhækkunin er 26 prósent eða 700 kr á Freyju ríseggi nr. 9 og næst mesta 25 prósent eða 350 kr á Góu páskaeggi með lakkrís nr. 4. Þó er tekið fram að nokkur páskaeggjanna í Hagkaup voru ekki verðmerkt eða ekki til og því ekki hægt að gera verðsamanburð á þeim milli ára.

Í öðrum verslunum eru litlar eða engar hækkanir, að því er segir í könnun. Í Nettó lækka páskaegg mest í verði af þeim verslunum sem kannaðar voru, eða 10 af þeim 15 eggjum sem voru skoðuð. Þar er mesta verðlækkun 12 prósent á sterku Freyju djúpeggi nr. 9. Næst mesta verðlækkunin er í tilfelli bæði Nóa Siríus-páskaeggs nr. 5 og Freyju draumaeggs nr. 10. Þau lækka um 9 prósent í verði milli ára.

Sjá einnig: Flest páskaeggin einni krónu ódýrari í Bónus en Krónunni

Borið var saman verð í verðkönnunum verðlagseftirlits ASÍ þann 6. apríl 2017 og þann 20. mars 2018. Kannanirnar ná til eftirtalinna verslana; Bónus, Krónunnar, Nettó, Fjarðarkaupa, Hagkaupa og Iceland. Víðir er ekki með í verðsamanburði milli ára þar sem engin páskaegg voru í boði í þeirri verslun árið 2018, að því er segir í verðkönnun ASÍ.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×