Innlent

Landlæknir eindregið á móti því að umskurður drengja verði bannaður

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Birgir Jakobsson, landlæknir.
Birgir Jakobsson, landlæknir. Vísir/Ernir
Landlæknisembættið er eindregið á móti því að umskurður drengja falli undir hegningarlög. Þá óttast landlæknir að frumvarp þess efnis muni leiða til þess að umskurðaraðgerðir verði framkvæmdar við aðstæður sem ekki tryggja öryggi barna.

Í umsögn Embættis landlæknis um umskurðarfrumvarpið svokallaða segir að landlæknir fagni því að breytingar á lögum varðandi umskurð á drengjum séu til umræðu á Alþingi.

„Hins vegar er embættið eindregið á móti því að umskurður á drengjum falli undir hegningarlög,“ segir þó enn fremur í umsögn.

Trúar- og menningarlegar hliðar of ríkar

Þá er landlæknir ósammála flutningsmönnum þegar þeir leggja „umskurð“ á stúlkubörnum til jafns við umskurð á drengjum. Þar að auki telur landlæknir að umskurður verði framkvæmdur á drengjum þrátt fyrir að aðgerðin verði bönnuð.

„Það er álit Embættis landlæknis að trúarlegar og menningarlegar hliðar á þessu máli séu svo ríkar, að umskurður á forhúð drengja muni verða framkvæmdur um ófyrirsjánalega framtíð óháð því hvaða afstöðu heilbrigðiskerfið og samfélagið að öðru leyti mun hafa til þess að leyfa þessa aðgerð. Það er því nauðsynlegt að löggjöf á þessu sviði sé gerð þannig úr garði að umskurður á drengjum valdi ekki barninu skaða,“ segir í umsögn landlæknis.

„Embætti landlæknis óttast að umrædd þingsályktunartillaga muni leiða til þess að þessar aðgerðir muni verða gerðar við aðstæður sem ekki tryggja öryggi þeirra barna sem hér um ræðir.“

Á fimmta hundrað lækna fagna frumvarpinu

Frumvarp Silju Daggar Gunnarsdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins, um almennt bann á umskurði barna er ansi umdeilt og vilja margir meina að með því að banna umskurð sé trúfrelsi ákveðinna hópa skert. Á meðal þeirra sem hafa andmælt frumvarpinu eru þýski kardinálinn Richard Marx og biskup Íslands, Agnes Sigurðardóttir.

Aðrir segja að um sé að ræða mannréttindamál og að réttur barna vegi þyngra en trúfrelsi. Þá hafa á fimmta hundrað íslenskra lækna fagnað frumvarpinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×