Viðskipti innlent

Ríkið fær 9 milljarða í sérstakri arðgreiðslu frá Landsbankanum

Hörður Ægisson og Kristinn Ingi Jónsson skrifa
Að meðtalinni arðgreiðslu sem lögð verður til á aðalfundi nema arðgreiðslur Landsbankans 132 milljörðum frá stofnun.
Að meðtalinni arðgreiðslu sem lögð verður til á aðalfundi nema arðgreiðslur Landsbankans 132 milljörðum frá stofnun. Vísir/Anton
Bankaráð Landsbankans, sem er að 98 prósenta hluta í eigu íslenska ríkisins, hefur lagt það til við aðalfund bankans, sem verður haldinn næstkomandi miðvikudag, að greiða sérstaka arðgreiðslu til hluthafa upp á samtals 9.456 milljónir króna.

Hlutdeild ríkissjóðs í arðgreiðslunni verður því tæplega 9,3 milljarðar en áður hafði Landsbankinn tilkynnt að greiddur yrði 15,4 milljarða króna arður til hluthafa vegna reksturs bankans árið 2017. Samtals greiðir bankinn því um 24,8 milljarða í arð á þessu ári sem rennur nánast að öllu leyti til ríkisins. Það er sama fjárhæð og bankinn greiddi út á síðasta ári. Þá var annars vegar um að ræða 13 milljarða króna arðgreiðslu vegna rekstrarársins 2016 og hins vegar sérstakan arð til hluthafa að fjárhæð 11,8 milljarðar króna.

Að meðtalinni arðgreiðslu sem lögð verður til á aðalfundi bankans í næstu viku nema arðgreiðslur bankans samtals 132 milljörðum króna frá stofnun.

Eiginfjárhlutfall Landsbankans var 26,7 prósent í lok síðasta árs borið saman við 30,2 prósent í árslok 2016. Fjármálaeftirlitið gerir 21,4 prósenta heildarkröfu um eiginfjárgrunn bankans.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×