Skoðun

Of mikil áhætta

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Einhver ánægjulegustu tíðindi ársins voru af sölu ríkisins á 13 prósenta hlut sínum í Arion banka. Loksins hefur kyrrstaðan á bankamarkaði verið rofin og loksins hefur ríkið hafist handa við að losa um hluti sína í áhættusömum bönkum. Þar er heljarinnar verk fyrir höndum enda er ríkið enn sem áður með nokkur hundruð milljarða bundna sem eigið fé í tveimur bönkum. Engu að síður eru til menn – og raunar stjórnmálaflokkar – sem telja tvo ríkisbanka ekki nóg heldur vilja að ríkið eignist allt bankakerfið.

Þannig hafa heyrst raddir í þingsal á undanförnum vikum um að stjórnvöld eigi að nýta sér forkaupsrétt, sem hefur þó aldrei virkjast, og leysa til sín Arion banka. Talað er um að ríkið hafi „gefið eftir“ og vogunarsjóðir „gengið á lagið“ og er engu skeytt um staðreyndir á borð við þær að ríkið hafi fengið nærri 11 prósenta ávöxtun á eign sína í bankanum og muni auk þess fá langstærstan hluta af söluandvirði bankans í sinn hlut.

Það er líkt og þeir sem tala svo fjálglega um að ríkið eignist þriðja bankann geri sér ekki grein fyrir þeirri áhættu sem felst í bankarekstri. Ríkisbankar eru engar peningavélar sem geta skilað hagnaði án nokkurrar fyrirhafnar. Við þekkjum af biturri reynslu hvernig fór fyrir gömlu ríkisbönkunum. Tap á rekstri þeirra var tap almennings.

Ör tækniþróun er um þessar mundir að gjörbylta bankaþjónustu, eins og við þekkjum hana, og opna markaðinn upp á gátt. Hætta er á því að hefðbundnir bankar verði – áður en langt um líður – fullkomlega óþarfir. Af þeim sökum hefur aldrei verið brýnna að ríkið dragi sig alfarið út úr bankarekstri.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×